Átjánda öld og nýlegar þjóðfræðirannsóknir

Höfundur:

Það er ekki vandalaust að tala um þjóðfræðirannsóknir á málefnum 18. aldar vegna þess að þjóðfræðin varð til sem fræðigrein utan um efni sem safnað var á 19. öld í anda þeirrar hugmyndafræði sem þá stýrði hugum menntamanna. Þjóðfræði fjallar eiginlega ekki um 18. öld. Með því að vera sveigjanlegur er þó hægt að gera grein fyrir rannsóknum á sambærilegu efni frá 18. öld og rúmast hefur innan hefðbundinnar þjóðfræði: almennum þjóðháttum, hugarfars- og hugmyndasögu, munnmælasögum og -kvæðum, og svokallaðri þjóðtrú. Um þjóðtrú á 18. öld er þó erfitt að fjalla með sama hætti og þjóðtrú frá síðari tímum því að við ætlum að það sem kallað er þjóðtrú hafi verið samofnara raunheiminum þá en síðar varð. Stundum er þó kannski gert heldur mikið úr þessum mun á heimsmynd nútímamanna og fyrri tíðar fólks; jafnvel látið eins og það sé ekki lengur útbreitt að fólk trúi á galdra, skrýmsli, fyrirboða og almennan draugagang - þó að Sálarrannsóknafélagið fari að meðaltali í tvö útköll á dag til að kveða niður drauga, og fjölmiðlar flytji reglulega fréttir um draugagang og skrýmsli.

Helsta vandamál nútímaþjóðfræða, sjálfsmyndarkreppan, verður enn meira áberandi þegar horft er til 18. aldar. Hvar byrjar þjóðfræðin og hvar lýkur bókmenntafræðinni og sagnfræðinni - sem tekur nú til félags- og hugmyndasögu og alls kyns þátta úr daglegu lífi almennings sem þjóðfræðingar telja stundum vera á sínu sviði? Félagsfræðinni verður því miður ekki við komið með aðferðafræðum sínum vegna þess hve erfitt er um vik að gera tölfræðilega marktæk úrtök á almenningi 18. aldar til viðhorfskannana af ýmsu tagi. Við höfum aðeins aðgang að örlitlum skjá til að skima í gegnum eftir almennum sannindum eins og þeim að líklega hafi fólk á 18. öld skemmt sér við munnmælasögur af sama toga og skráðar voru síðar.(i) Víst er þó að 18. aldar menn voru ennþá að segja sögur af fornköppum og má líklega þakka það söfnunarstarfi Árna Magnússonar að slíkar frásagnir rötuðu á blað.(ii)

Þjóðtrú og hugmyndaþróun

Ekki er lengur hægt að hlusta á sögur þess fólks sem Harboe hellti sér yfir í umburðarbréfi til klerkdómsins frá 1743 og bannsungnar voru í Forordningu um hús-vitjanir frá 1746.(iii) Og ekki er heldur vitað hversu útbreidd sagna- og kvæðaskemmtunin var í prósentum talið, sem þeir Eggert og Bjarni segja frá í Ferðabók sinni og oft er vitnað til.(iv) Hvað þá að hægt sé að meta hvort fólk trúði í raun og veru á þau fyrirbæri sem getið er um í sögunum - frekar en að við trúum á allt það skemmtiefni sem boðið er uppá á myndbandaleigunum. Þennan almenna vanda þjóðtrúarfræða hefur Árni Björnsson skrifað um í Skírni (v) þar sem hann efast um að trú á huldar vættir og yfirnáttúrleg fyrirbæri hafi nokkru sinni verið almenn, ekki einu sinni á átjándu öld. Árni segir að hvenær sem borið sé niður telji fólk að þjóðtrú sé á undanhaldi, enda hafi flestir sennilega heyrt hennar getið hjá eldra fólki í æsku sinni og hallist þá að því löngu síðar að líklega hafi gamla fólkið trúað því sem það var að segja - þótt fáir leggi trúnað á slíkt á fullorðinsárum. Hugmyndir Árna hljóta að kalla á skýr viðbrögð allra sem fást við þessi fornu fræði þar sem menn hafa gengið út frá því sem vísu að fyrir upplýsingu hafi trú á það sem nú er kallað yfirnáttúrleg fyrirbæri, eða hjátrú, verið útbreidd, ólíkt því sem síðar varð. Erfitt gæti reynst að sanna útbreiðslu slíkrar trúar á fyrri tíð vegna eðlis þeirra heimilda sem tiltækar eru; nógu erfitt er að fá skýra mynd af trú samtímamanna okkar með þeirri tölfræðilega áreiðanlegu félagsfræði sem þó stendur til boða við könnun á slíkri trú.

Mjög djarfa tilraun til endurmats á mætti galdra og viðhorfi fólks til þeirra, meðal annars á 18. öld, er að finna í bók Matthíasar Viðars Sæmundssonar um Galdra á Íslandi.(vi) Þar er rækileg ritgerð um galdur, fjölkynngi og fordæðuskap sem djöflafræði lúterskunnar steypti saman þannig að þeir sem læknuðu fólk og skepnur með göldrum og guðsorði breyttust skyndilega í menn á samningi við djöfulinn við siðbreytinguna, að mati Matthíasar. Einnig er í bókinni birtur texti íslenskrar galdrabókar frá 17. öld með rækilegum skýringum við hvern galdur sem þar er skráður. Kenning Matthíasar er að galdrakúnst hafi lifað í friðsælu sambýli við kirkjuna á miðöldum og verið notuð með krafti dýrlinga við almennar lækningar. Nokkuð skortir þó á að sterk og skipuleg rök séu færð fyrir samfelldu lífi galdraiðkunar og galdratrúar frá heiðni og fram undir upplýsingu. Kostur bókarinnar er hins vegar sá að hún tekur galdurinn alvarlega sem raunverulegt afl í mannlífinu, í krafti trúar og heimsmyndar síns tíma en ekki með kaldri rökhyggju 20. aldar.

Af öðrum rannsóknum á viðhorfum til svokallaðrar hjátrúar eða þjóðtrúar á 18. öld er nærtæk grein Hilmars Garðarssonar sem rakti viðhorf og mat upplýsingarmanna á hjátrú í Sögnum 1989,(vii) talaði um vantrú þeirra á galdri og tilraunir til að skýra alls kyns fyrirboða með eðlilegum orsökum - og afgreiða þá sem sáu tröll og skrýmsli sem hjátrúarmenn. Þó bendir Hilmar á að menn hafi aldrei verið alveg vissir um hvar mörkin lágu eins og dæmið af hverafuglunum, sem Eggert Ólafsson treysti sér ekki til að rengja, er til vitnis um.

Almenna innsýn í þjóðhætti og hugmyndir manna á 18. öld má einnig fá af ferðabókum útlendinga eins og Sumarliði Ísleifsson gerði grein fyrir í bókinni Ísland framandi land þar sem hann rýnir í umfjöllun útlendinga og hugmyndir þeirra um Ísland á fyrri öldum, meðal annars á 18. öld. Rannsókn Sigurðar Steinþórssonar í Skírni 1992(viii) af frásögnum í erlendum heimildum af Skaftáreldum, og þeim hugmyndum sem menn gerðu sér um móðuna, skiptir líka máli fyrir þá sögu. Margt af því gæti fallið undir þjóðfræði.

Af sama meiði er greinargerð Kristjáns Sveinssonar í Sögu 1994 um hvernig viðhorf Íslendinga til Grænlendinga hafa mótast og breyst frá 18. öld til þeirrar 20. Á 18. öld upphófst áhugi á Grænlandi með Íslendingum, sem tengist bæði vaxandi fornfræðaáhuga Íslendinga sjálfra og kristniboði Dana sem reyndu að fá Íslendinga til að flytjast til Grænlands árið 1729. Menn tóku því vel í fyrstu en hvikuðu þegar á reyndi enda munu flestir hafa haft ímugust á Grænlandi. Seinna á öldinni fóru Íslendingar þó til trúboðsstarfa á Grænlandi en misstu svo áhugann þar til í sjálfstæðisbaráttunni að hugmyndir um forna frægð norrænna manna beindu augum þeirra aftur til grannans í vestri.(ix)

Hugmyndir lærðra 18. aldar manna um söguöldina koma síðan fram í ágætri umfjöllun Guðrúnar Ásu Grímsdóttur um ritgerð Jóns Grunnvíkings um vopn fornaldarmanna frá 1753, sem Guðrún gaf út í Árbók Fornleifafélagsins 1994 (pr. 95). (x) Guðrún Ása vísar einnig í hliðstætt efni frá kennara Jóns, Páli Vídalín, og úr Ferðabók Eggerts og Bjarna frá 1772.

Þjóðsögur af atburðum og persónum frá 18. öld

Nokkrar af frægustu og klassískustu þjóðsögunum úr safni Jóns Árnasonar má rekja til persóna og atburða á 18. öld: Galdra-Loftur á sér fyrirmynd í Lofti Þorsteinssyni, skólapilti á Hólum sem dó 1722; Fjalla-Eyvindur, Halla og Arnes útileguþjófur voru uppá sitt besta um miðja öldina þegar Hjaltastaðafjandinn reið húsum, Reynistaðabræður hurfu á Kili 1781, séra Oddur á Miklabæ hvarf árið 1786 og Írafells-Móri var vakinn upp 1793 og sendur Kort Þorvarðssyni á Möðruvöllum í Kjós. Allar rannsóknir á þessum sögum leiða mann því um leið að 18. aldar fræðum.

Sölvi Sveinsson rakti allar sögur, sagnir og kvæði um hvarf séra Odds Gíslasonar á Miklabæ árið 1786 í Skagfirðingabók 1986.(xi) Rannsókn Sölva er hið merkasta framlag til athugana á samspili veruleikans og þjóðsögunnar, og kannski ekki síst á lífi þjóðsögunnar sem birtist í ólíkum myndum, allt frá tíðavísum séra Sigfúsar Jónssonar í Höfða sem ortar voru sama ár og séra Oddur hvarf, til þess að séra Lárus á Miklabæ stóð fyrir því að grafa upp bein Solveigar árið 1937, að sögn með hjálp séra Odds sem birtist manni í draumi og vísaði á leiðið.

Samspil veruleika og þjóðsögu kemur líka mjög við sögu hjá Þórunni Valdimarsdóttur sem reynir oft að finna sannleikskornið í þjóðsögum af Snorra á Húsafelli en lítur framhjá sjálfu lífi sagnanna um Snorra - sem þjóðfræðingurinn hefði velt sér meira uppúr.

Ólína Þorvarðardóttir skrifar um Galdra-Loft í Tímarit Máls og menningar 1995 (xii) og rekur feril sagna af Lofti, frá Árbókum Espólíns um Gísla Konráðsson til Skúla Gíslasonar. Hún gerir jafnframt grein fyrir tengslum þeirra við erlendar hliðstæður og úrvinnslu Jóhanns Sigurjónssonar um leið og hún leggur áherslu á sérstöðu Galdra-Lofts sem stéttleysingja innan um góðlega galdramenn úr prestastétt á aðra hönd, og óbreytt og illgjarnt alþýðufólk á hina. Hann sé dæmi um mann sem gangi of langt í menntun sinni og eigi ekki afturkvæmt. Þá hefur Ólína skrifað um þróun galdramannasagna og hugmynda sem í þeim birtast í ráðstefnurit um rannsóknir í félagsvísindum frá 1995.(xiii) Þar heldur hún fram sálarhreinsandi hlutverki sagnanna en gerir jafnframt ráð fyrir hugmyndaþróun sem megi tengja við þann tíma sem nafngreindir galdramenn hafi lifað á, en hirðir minna um það hvenær sögurnar sem um er fjallað voru ritaðar. Þannig voru flestar hinna þekktustu sögur af Sæmundi fróða skráðar á dögum Árna Magnússonar en flestar galdramannasögur eru ekki skráðar fyrr en af þjóðsagnariturum 19. aldar - og því er mjög erfitt að tala um þróun eftir öldum, á þann hátt sem Ólína gerir, með slíkan efnivið í höndunum.

Jón Hnefill Aðalsteinsson hefur líka gert grein fyrir íslenskum galdramönnum í tveimur greinum í ARV 1994 og 1996,(xiv) en virðist ekki, frekar en Ólína, gera greinarmun á sögum af þeim eftir ritunartíma heldur horfa miklu frekar til þess tíma sem galdramennirnir eru sagðir hafa verið uppi á.

Sjálfur skrifaði ég um þjóðsögur Jóns Árnasonar í 3. bindi Íslenskrar bókmenntasögu(xv) og drap þar aðeins á þær munnmælasögur sem Bjarni Einarsson gaf út í Munnmælasögum 17. aldar, og vakti til dæmis athygli á því að sumir galdramannanna beiti sömu brögðum hvort sem er í hinum eldri ritum eða hjá heimildarmönnum Jóns Árnasonar, en hins vegar sé annar blær á útilegumannasögum frá um 1700 og þeim sem skráðar eru á 19. öld; þannig að byggðir útilegumanna í sögum fyrir upplýsingu eru miklu nær óskalandi huldubyggða en þeim ógnvekjandi ræningjabælum útilegumanna sem eru meira áberandi í þjóðsögum 19. aldar.

Grein Helga Hallgrímssonar um uppruna og eðli huldufólks í Andvara kemur við á 18. öld því að þar rekur hann hugmyndir frá siðbreytingu til okkar daga.(xvi) Þá má nefna að Ragnar Karlsson skrifar um Rauðhöfðasagnir í Árbók Suðurnesja 1988,(xvii) en elsta skráða gerð sagnarinnar er í handritinu Lbs. 724, 4to frá um 1710-30. Ragnar talar um ferðir í Geirfuglasker á 17. öld, sem gætu hafa orðið kveikjan að sögninni, og rekur almennt hugmyndir manna á 18. öld, en þó meira á þeirri 17., um illskeytta hvali.

Þjóðkvæði

Helsta framlag á undanförnum árum til rannsókna á höfundarlausum kveðskap og skyldu efni sem gegnt hefur lifandi hlutverki í þjóðlífinu á 18. öld er að finna í 6. bindi ritraðarinnar um íslenska þjóðmenningu frá 1989. Þar skrifaði Einar G. Pétursson um særingar,(xviii) sem eru varðveittar án höfundarnafns allt frá því í öndverðu en voru einnig ortar af nafngreindum skáldum sem Einar tekur helst dæmi af frá 17. öld. Um ákvæðaskáldskap af þessu tagi verður þó enn um sinn að styðjast við ritgerð Bo Almqvist í Skírni frá 1961(xix) þótt hann horfi ekki sérstaklega til 18. aldar frekar en Einar Gunnar.

Ögmundur Helgason skrifar í sama bindi yfirlit um þulur(xx) en þær eru sumar varðveittar í 18. aldar handritum þótt fæstar þeirra komist á blað fyrr en á 19. öld. Rætur þeirra liggja þó án efa langt aftur fyrir þann tíma og varla nokkur vafi á að þulur hafi notið sín vel sem skemmtiefni á fyrri öldum. Þær tengjast líka langlokum sem voru vinsælar á 18. öld og eru oft eignaðar nafngreindum höfundum eins og sú frægasta nú á dögum, Gilsbakkaþula eftir 18. aldar skáldið Kolbein Þorsteinsson (1731-83). (xxi)

Vikivakakvæði eru vinsæl í íslenskum handritum frá 17. og 18. öld þó að barátta yfirvalda gegn skemmtunum almennings hafi komið hart niður á þeim. Vésteinn Ólason skrifar um þau í sama riti (xxii) og rekur hvernig nafngreind skáld, þ. á m. Bjarni Gissurarson (um 1621-1712) og Eggert Ólafsson (1726-1768), ortu sig inn í þessa kveðskapargrein sem þó er varðveitt án höfundarnafns í elstu handritum frá um 1600, og veltir fyrir sér almennu skemmtigildi kvæðanna og hlutverki fyrir þróun dans- og sönglistar í landinu.

Vésteinn Ólason hefur líka skrifað mikið um sagnadansa og síðast í umrætt bindi, (xxiii) meðal annars rakið hvernig þessi höfundarlausa kveðskapargrein hefur lifað á vörum alþýðu allt frá miðöldum og ekki hnignað fyrr en á 19. öld. Vésteinn gerir mikið úr hlut kvenna við varðveislu kvæðanna og segir þau hafa slitnað úr tengslum við dansinn og orðið að almennum söngkvæðum eftir siðaskipti, jafnvel sem konur kváðu sín á milli og við börn.

Ótalinn er kafli Böðvars Guðmundssonar um þjóðkvæði, einkum 16, 17. og 18. aldar, í 2. bindi Íslenskrar bókmenntasögu (xxiv) og grein eftir sjálfan mig í Griplu árið 1995 (xxv) þar sem reynt er að tengja Kötludraum, eitt vinsælasta sagnakvæði 17. og 18. aldar ef marka má handritavarðveislu, við þá ógn sem fólki stóð af Stóradómi. Kötludraumur segir frá vanda Kötlu sem hefði verið sakakona á þeim tíma sem fólk kepptist við að skrifa það í handrit (17./18. öld). Hún verður ófrísk eftir annan mann en sinn ektamaka og kennir barnið huldumanni, en boðskapur kvæðisins er sá að betra sé að þegja um slík hliðarspor en gera þau opinber - væntanlega með þeim herfilegu afleiðingum sem slíkt hlaut að hafa.

Um atvinnu- og þjóðhætti

Almennir atvinnu- og þjóðhættir falla undir rannsóknarsvið þjóðfræða. Þar ber hátt fimm binda verk Lúðvíks Kristjánssonar um íslenska sjávarhætti sem nýtir sér meðal annars heimildir frá 18. öld. (xxvi) Sama má segja um hin miklu rit Árna Björnssonar um Sögu daganna og Merkisdaga á mannsævinni. (xxvii) Þar er fléttað inn rannsóknum á heimildum um daglegt líf fólks á 18. öld í bland við aðrar aldir Íslandssögunnar.

Til þessa málaflokks teljast líka greinar Elsu E. Guðjónsson um vefstóla og vefara á Íslandi á 18. og 19. öld í Árbók Fornleifafélagsins 1993 (pr. 94) (xxviii) en það er einmitt á 18. öld sem láréttur vefstóll (orðið kemur fyrst fyrir 1754) kemur smám saman í staðinn fyrir vefstaðinn gamla, og tengist sú tækninýjung innréttingunum í Reykjavík.

Rannsóknir á klæðaburði, mataræði og tónlist eiga heima innan þjóðfræða. Þar má geta bókar Æsu Sigurjónsdóttur frá 1985 um klæðaburð íslenskra karla á 16., 17. og 18. öld.(xxix) Æsa styðst bæði við ritaðar lýsingar og myndir og sýnir að þótt höfðingjar og fyrirfólk hafi reynt að fylgja hirðtískustraumum frá meginlandinu, skartað litklæðum og sett upp hárkollur sem héldust í íslenskri tísku allt til aldamótanna 1800, hafi það ekki verið á færi alþýðu að fylgja slíku tildri, enda mun hún lítt hafa breytt klæðnaði sínum alla öldina.

Hallgerður Gísladóttir fer fyrir þeim sem hafa horft til mataræðis á fyrri tíð, og hefur meðal annars gert grein fyrir helstu heimildum um matargerðarlist þeirrar aldar í tveimur greinum í Heima er bezt á nýliðnu ári (xxx) og í fjölriti sem hún notar við kennslu í þjóðfræðadeildinni við Háskóla Íslands. (xxxi)

Sveinbjörn Rafnsson skrifaði um og birti skýrslu Þórarins Liljendals um algengustu fæðu bænda og vinnufólks á Íslandi frá 1783 í Sögu 1983, (xxxii) þar sem fram kemur að fólk hafi aðallega borðað mjólkurafurðir (skyr og smjör) og fisk en nær ekkert brauðmeti. Elstu heimildir um laufabrauð eru frá 18. öld eins og Elsa E. Guðjónsson rekur í Árbók Fornleifafélagsins 1986 (pr. 87). (xxxiii) Elsa bætir þar við fyrri þekkingu á aldri laufabrauðsins, sem menn vissu áður fyrst talað um í frásögn Sveins Pálssonar frá 1799 af veislu Bjarna landlæknis Pálssonar fyrir Joseph Banks árið 1772, en Elsa tekur orðabók Grunnavíkur-Jóns inn í þá umræðu og nær þannig að færa elstu heimild um laufabrauðið aftur til ársins 1736 eða þar um bil.

Um tónlist 18. aldar hef ég því miður lítið fundið í nýlega prentuðum verkum og því er ánægjulegt að geta bent á grein David G. Woods um sögu íslenska langspilsins í Árbók Fornleifafélagsins 1993 (pr. 94) (xxxiv) þar sem hann rekur meðal annars lýsingar á því frá 18. öld, úr leiðangri Stanleys 1789 og ævisögu séra Jóns Steingrímssonar frá 1784-91, og ályktar að langspilið hafi verið algengt alþýðuhljóðfæri á 18. öld.

Börn, barnamenning og hjónalíf

Börn og sú menning sem þau iðka hefur í vaxandi mæli verið rannsóknarefni þjóðfræðinga og því er margt af rannsóknum á börnum, barnauppeldi og hjúskaparfari á 18. öld á sviði þjóðfræða. Dagný Heiðdal skrifaði til dæmis um ungbarnadauða og ungbarnaeldi á 18. og 19. öld í tímaritið Sagnir 1988.(xxxv) Þar kemur fram að ungbarnadauði hafi verið miklu tíðari hér á landi en erlendis á sama tíma, og hafi ekki farið að draga úr honum fyrr en eftir miðja 19. öld. Til skýringar á ungbarnadauðanum bendir Dagný á að íslensk börn hafi ekki verið alin á brjóstamólk heldur fituríku fæði og hálftuggnum mat í dúsum - sem hafi valdið magakrampa og vandræðum í meltingu. Þetta að viðbættum almennum sóðaskap og illum aðbúnaði hafi dregið mjög úr lífslíkum íslenskra barna miðað við til dæmis ensk þar sem börn fengu brjóstamólk fyrstu mánuðina og síðan hafraseyði hálfs árs gömul og loks þyngri mat enn síðar.

Grein Dagnýjar er ein af mörgum um börn og barnauppeldi á 18. öld: Gísli Gunnarsson birtir rit sitt um það efni 1983,(xxxvi) Sigríður Sigurðardóttir spurði hvort konur hefðu haft börn á brjósti 1700-1900 í Sögnum 1982,(xxxvii) Loftur Guttormsson hefur víða komið við í umræðu um barnaeldi og ungbarnadauða í sínum skrifum,(xxxviii) og Helgi Skúli Kjartansson leggur orð í belg umræðunnar um orsakir ungbarnadauðans í Sögnum 1989. (xxxix) Í sama hefti Sagna skrifar Ingunn Þóra Magnúsdóttir um viðhorf til barnauppeldis og aga á 17. og 18. öld (xxxx) þegar helstu aðferðir við uppeldi miðuðu að því að auka hlýðni og aga með endalausum refsingum.

Talað er um barnaleiki á 18. öld í bók Símonar Jóns Jóhannssonar og Bryndísar Sverrisdóttur um Bernskuna, frá 1990,(xxxxi) meðal annars hvaða áhrif tilskipanir kirkjunnar manna um skaðsemi leikja hafi haft - með ánægjulegum undantekningum eins og hjá séra Birni í Sauðlauksdal (1724-1794) sem telur leiki ómissandi í húsmæðrariti sínu Arnbjörgu.

Í Sögu 1992 birtir Loftur Guttormsson athuganir sínar á hjúskap og hugarfari á 17.-19. öld,(xxxxii) þar sem meðal annars kemur fram að veisluhöld hjá almenningi á 18. öld hafi jafnvel verið meiri vegna trúlofunar en giftingar, með tilheyrandi festaröli eða kaupöli og kostnaði sem af því hlaust. Árið 1783 voru slíkar veislur bannaðar og banninu haldið til streitu fram yfir aldamótin 1800 eftir því sem fram kemur hjá Lofti. Almennt má segja að sagnfræði Lofts tengist lífi og lífsháttum alþýðu og falli því að hluta til saman við þjóðfræðileg viðfangsefni.(xxxxiii)

Lára Magnúsardóttir skrifaði skemmtilegt yfirlit um veraldlegar hliðar mannlífs á Íslandi á 18. öld í Nýja sögu 1993.(xxxxiv) Lára reynir að skyggnast á bak við opinbera hugmyndafræði kirkjunnar og menntamanna og draga fram alþýðlegri viðhorf sem koma meðal annars fram í því hvernig reynt er að vanda um fyrir almenningi og vinna gegn tilhneigingu til agaleysis, drykkjuskapar og áfloga í kirkjum, og einnig gegn óreiðu, óskírlífi, flakki og almennri óhlýðni sem stafaði að hluta til af vitlausu kerfi sem reynt var að þvinga upp á fólk sem átti nóg með að brauðfæða sig.

Af þessu yfirliti um rannsóknir á málefnum 18. aldar sem hægt er að setja undir víðan hatt þjóðfræða má draga þann lærdóm að okkur skorti úttekt á heimildum um hugarheim alþýðu og útbreiðslu ólíkra þjóðtrúarhugmynda á 18. öld með hliðsjón af þeim aðferðafræðilega vanda sem Árni Björnsson hefur velt upp í sambandi við þjóðtrú. Menn þurfa líka almennt að vera gagnrýnni á heimildirnar, gera sér og öðrum grein fyrir uppruna þeirra, til dæmis hvort þær eru skráðar í fróðleiksskyni á 18. öld eða til komnar vegna áhuga rómantískra menntamanna á söfnun þjóðfræðaefnis á 19. öld. Slík varkárni er nauðsynleg þegar kemur að því að meta hvað þessar heimildir geti sagt okkur um raunverulegt líf og hugarheim þorra skynsamrar alþýðu á 18. öld. Eins er rík ástæða til að tengja efni í handritum, kvæði og sagnaefni, meira við samtíð sína en gert hefur verið og velta því fyrir sér hvers vegna fólk hafi haft áhuga á að skrifa einmitt þetta en ekki eitthvað annað - fremur en að einblína alltaf á miklu hærri aldur hins munnlega varðveitta efnis og reyna að grafast fyrir um rætur þess í glataðri fortíð.

Aftanmálsgreinar

(i) - ef nokkuð er að marka Umburðarbréf Ludvigs Harboes til klerkdómsins frá 1743 þar sem hann hvetur kennimenn "að kosta kapps um að uppræta og eyðileggja þær hneykslanlegu, svívirðilegu og heiðinglegu lygasögur, æfintýr, ljóð og dikti, er innihalda opt og tíðum það, sem er þvert á móti heilagri ritningu, heilvita manna skynsemi og heiðri, en finnast þó, sem eg hefi heyrt, í ofmörgum stöðum og hjá ofmörgum bæði iðkaðar og elskaðar, bæði jafnt og líka langt um framar öðru sannorðu, nytsamlegu og sáluhjálplegu." Sérstaklega finnst Harboe hneykslanlegt "að menn hafa fyrst munn og tungu við heiðinglegt og hégómlegt sagna, rímna og kvæða buldur, af hverju sumt er svo stýlað og diktað, að afguðir og jafnvel djöflarnir finna sér þar í tileinkað bæði lof og líka stórmerki" og setjist síðan niður strax á eftir til að hlýða á guðsorð eins og ekkert væri. Bréf Harboes er prentað á bls. 131-133 í Æfisögu Jóns Þorkelssonar skólameistara í Skálholti (II. Fylgiskjöl - Thorkilliisjóður og skóli). Reykjavík 1910.

(ii) Til er saga af blöðum Árna Magnússonar, skrifuð 1708 eftir Atla Sigurðssyni sem hefur heyrt hana um fimmtán árum fyrr hjá Ormi N. syni á Þverá undir Fjalli á Síðu. Sagan líkist um margt Droplaugarsona sögu og Fljótsdæla sögu án þess að hægt sé að gera ráð fyrir beinum skyldleika eða þekkingu Atla á hinum rituðu sögum (sbr. Bjarna Einarsson. Munnmælasögur 17. aldar. Íslenzk rit síðari alda 6. Reykjavík 1955, cxlvi-cl). Tvær fornsögur úr munnlegri geymd eru og til með hendi séra Eyjólfs á Völlum í Svarfaðardal (d. 1745) sem hann segist hafa heyrt í æsku hjá móður sinni Vilborgu Sveinsdóttur og Björgu móður hennar (sbr. bls. clvi-clxi hjá Bjarna. Sjá einnig Judith Jesch. Ásmundar saga Flagðagæfu. ARV 1982, 103-131). Sérstaklega merkar eru athugasemdir séra Eyjólfs um að amma hans (sem dó árið 1690, 76 ára gömul) hafi lært sögur í uppvexti sínum á Breiðabólstað, af ákaflega stórum kálfskinnsbókum sem voru í láni úr Ögri vestan. Lýsing Eyjólfs sýnir glögglega samspil ritaðra frásagna við lifandi munnlega hefð á þeim öldum þegar bækur voru fáar og dýrar, og því ekki um annað að ræða fyrir sagnaglatt fólk en að grípa tækifærið ef það var í grennd við bækur: hlusta vel og leggja á minnið til að geta síðan ausið af þeim lifandi sagna- og kvæðabrunni til komandi kynslóða þegar bókunum hafði verið skilað - eða þær seldar til útlanda.

(iii) "Presturinn skal það alvarlegasta áminna heimilisfólkið að vakta sig fyrir ónytsamlegum sögum og ólíklegum ævintýrum og uppdiktum, sem í landinu hafa verið brúkanlegar, og öngvanveginn líða, að þær séu lesnar eður kveðnar í þeirra húsuum, so að börnin og þeir uppvaxandi villist ekki þar af." Alþingisbækur Íslands 13 (1973), 537. 

(iv) Sbr. Jón Hnefil Aðalsteinsson. Þjóðsögur og sagnir. Íslensk þjóðmenning 6. Reykjavík 1989, 283-285.  

(v)Árni Björnsson. Hvað merkir þjóðtrú? Skírnir 170 (vor 1996), 79-104.  

(vi) Galdrar á Íslandi. Reykjavík 1992.  

(vii) Hilmar Garðarsson. Upplýsing gegn hjátrú. Viðhorf og mat upplýsingarmanna á hjátrú. Sagnir 10 (1989), 38-45. Sjá einnig Loft Guttormsson. Bókmenning á upplýsingaröld. Upplýsingin í stríði við alþýðumenningu. Gefið og þegið. Afmælisrit til heiðurs Brodda Jóhannessyni sjötugum. Reykjavík 1987.  

(viii) Sigurður Steinþórsson. Annus mirabilis. 1783 í erlendum heimildum. Skírnir 166 (vor 1992), 133-159. 

(ix) Kristján Sveinsson. Viðhorf Íslendinga til Grænlands og Grænlendinga á 18., 19. og 20. öld. Saga 32 (1994), 159-210.  

(x) Guðrún Ása Grímsdóttir. Jón Ólafsson úr Grunnavík: Um vopn fornaldarmanna. Inngangur og eftirmáli eftir Guðrúnu Ásu Grímsdóttur. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1994 (pr. 1995), 5-16.  

(xi) Sölvi Sveinsson. Af Solveigu og séra Oddi. Skagfirðingabók 15 (1986), 69-127.  

(xii) Ólína Þorvarðardóttir. Þjóðsagan um Galdra-Loft, manninn og myrkrið - dauðann og djöfulinn. TMM 1:95, 91-99.  

(xiii) Ólína Þorvarðardóttir. Íslenskar galdrasögur. Lyklar að lausn úr hugmyndakeppu. Rannsóknir í félagsvísindum. Ritstj. Friðrik H. Jónsson. 1995, 419-429. 

(xiv) Jón Hnefill Aðalsteinsson. Sæmundur Fróði. A Medieval Master of Magic. ARV 50 (1994), 117-132. Jón Hnefill Aðalsteinsson. Six Icelandic Magicians after the Time of Sæmundur Fróði. ARV 52 (1996), 49-61.  

(xv) Gísli Sigurðsson. Þjóðsögur. Íslensk bókmenntasaga 3. 1996.

(xvi) Helgi Hallgrímsson. Huldumanna genesis. Íslenskar sagnir um uppruna og eðli huldufólks. Andvari 1996, 64-76. Samkvæmt Helga bæta 18. aldar menn þar nokkru við; í Ólafs sögu Þórhallasonar er til dæmis sagt að huldufólk sé afkomendur syndara sem faldi sig í niðri í jörðinni í Nóaflóði, og í sögunni af Ljúflinga-Árna sem Halldór Gíslason skráði í Desjarmýrarannál um miðja 18. öld, kemur fram sú hugmynd að Adam hafi verið tvígiftur, og átt huldufólkið með fyrri konunni. En Árni er líka borinn fyrir þekktustu sögunni um að huldufólkið sé komið af óhreinu börnunum hennar Evu.  

(xvii) Ragnar Karlsson. Rauðhöfðasagnir: þjóðtrú eða saga? Árbók Suðurnesja 1986-87 (pr. 1988), 15-35.  

(xviii) Einar G. Pétursson. Særingar. Íslensk þjóðmenning 6 (1989), 410-421.  

(xix) Bo Almqvist. Um ákvæðaskáld. Skírnir 1961, 72-98. 

(xx) Ögmundur Helgason. Þulur. Íslensk þjóðmenning 6 (1989), 401-409.  

(xxi) Sjá einnig greinar Jóns Samsonarsonar Þula, Barnagæla, Þjóðkvæði og Leikkvæði. Hugtök og heiti í bókmenntafræði. Ritstjóri Jakob Benediktsson. Reykjavík 1983.  

(xxii) Vésteinn Ólason. Vikivakakvæði. Íslensk þjóðmenning 6 (1989), 390-400.  

(xxiii) Vésteinn Ólason. Sagnadansar. Íslensk þjóðmenning 6 (1989), 372-389.  

(xxiv) Böðvar Guðmundsson. Þjóðkvæði. Íslensk bókmenntasaga 2 (1993), 480-487. 

(xxv) Gísli Sigurðsson. Kötludraumur. Flökkuminni eða þjóðfélagsumræða? Gripla 9 (1995), 189-217.  

(xxvi) Lúðvík Kristjánsson. Íslenzkir sjávarhættir 1-5, 1980-1986.  

(xxvii) Árni Björnsson. Saga daganna. 1993. Árni Björnsson. Merkisdagar á mannsævinni. 1996. 

(xxviii) Elsa E. Guðjónsson. Um vefstóla og vefara á Íslandi á 18. og 19. öld. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags. 1993 (pr. 1994), 5-50.  

(xxix) Æsa Sigurjónsdóttir. Klæðaburður íslenskra karla á 16., 17. og 18. öld. 1985. 

(xxx) Hallgerður Gísladóttir. Gömul matreiðslurit. Heima er bezt 3/46 (mars 1996), 91-94 og Fyrstu íslensku matreiðslubækurnar. Heima er bezt 6/46 (júní 1996).  

(xxxi) Hallgerður Gísladóttir. Eldhús og matur. (Fjölrit til kennslu við H.Í.). 1997. Upplýsingarmenn létu þennan málaflokk mjög til sín taka, Eggert og Bjarni lýsa víða mataræði til sveita, Eggert skrifaði sjálfur matjurtabók og mágur hans Björn Halldórsson í Sauðlauksdal var brautryðjandi í matjurtarækt. Ólafur Ólavíus samdi bækling um smjör og ostabúnað 1780, eins og Hallgerður rekur, og uppskar háð og spé fyrir tiltækið (Ólafur ostur, Ólafur smjer / Ólafur huppur og síða / Ólafur lýgur, Ólafur sver / Ólafur stelur víða.), Ólafur Ólafsson skrifaði langa matreiðslugrein í rit Lærdómslistafélagsins árið 1792 og fyrsta íslenska matreiðslubókin var prentuð í Leirárgörðum aldamótaárið 1800 (á titilsíðu stendur: Einfalt matreiðsluvasakver fyrir heldri manna húsfreyjur eftir Mörtu Maríu Stephensen þó að Magnús Stephensen mágur hennar hafi eignað sjálfum sér ritið í sjálfsævisögu sinni þar sem hann segist hafa fengið uppskriftirnar frá konu Þorkels Fjeldsteds í Noregi).  

(xxxii) Sveinbjörn Rafnsson. Um mataræði Íslendinga á 18. öld. Saga 21 (1983), 73-87. 

(xxxiii) Elsa E. Guðjónsson. Um laufabrauð. Er orðabók Jóns Ólafssonar frá Grunnavík elsta heimild um laufabrauð? Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1986 (pr. 1987), 103-115. 

(xxxiv) David G. Woods. Íslenska langspilið. Saga þess, smíði og notagildi til náms og kennslu. Njáll Sigurðsson námstjóri þýddi. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1993 (pr. 1994), 109-128. Um tónlist frá 18. öld verður enn um sinn að styðjast við grundvallarrit Bjarna Þorsteinssonar, Íslenzk þjóðlög. Kaupmannahöfn 1906-1909 (epr. á Siglufirði, án ártals). Þá má einnig nefna önnur eldri rit, þótt þau falli utan tímaramma þessarar samantektar, eins og Jón Samsonarson. Kvæði og dansleikir I. Reykjavík 1964 og Bókarauka Hreins Steingrímssonar, Lög við íslenska sagnadansa, við útgáfu Vésteins Ólasonar á Sagnadönsum, Reykjavík 1979, 397-435. Þá er merkileg sú umræða sem vaknaði um tengsl þjóðlagatónlistar á 18. öld við eddukvæði í greinum D. Hofmann (Die Frage des musikalisches Vortrags der altgermanischen Stabreimdichtung in philologischer Sicht. Zeitschrift fúr deutsches Altertum und deutsche Literatur 92 (1963), 83-121) og Jóns Helgasonar (Eddasång. Gardar 3 (1972), 15-49). Um skeið héldu menn að laglínur sem skráðar voru í 2. bindi fransks þjóðlagasafns sem J.B. de Laborde gaf út í París árið 1780 (Essai sur la musique ancienne et moderne) hefðu verið sungnar við eddukvæði á 18. öld vegna þess að Laborde birti laglínurnar með textum úr Völuspá, Hávamálum og fleiri fornkvæðum. Það mun hann hins vegar hafa gert vegna þess að lögin féllu að hinum fornu háttum (sem voru enn iðkaðir við annars konar kveðskap á 18. öld) og nákvæmlega sömu kvæði og hann tók höfðu nýlega verið prentuð í frönsku yfirlitsriti um goðafræði og fornan kveðskap.  

(xxxv) Dagný Heiðdal. "Þeir sem guðirnir elska deyja ungir." (Um ungbarnadauða og ungbarnaeldi á 18. og 19. öld) Sagnir 9 (1988), 65-71. 

(xxxvi) The Sex Ratio, the Infant Mortality and Adjoining Societal Response in Pretransitional Iceland. Lundi 1983. 

(xxxvii) Sigríður Sigurðardóttir. Höfðu konur börn á brjósti 1700-1900? Sagnir 3 (1982), 28-33. Sbr. einnig Helga Þorláksson. Óvelkomin börn? Saga 24 (1986), 79-120.  

(xxxviii) Loftur Guttormsson. Bernska, ungdómur og uppeldi á einveldisöld. (Ritsafn Sagnfræðistofnunar 10). Reykjavík 1983. Loftur Guttormsson. Barnaeldi, ungbarnadauði og viðkoma á Íslandi 1750-1860. Athöfn og orð. Afmælisrit helgað Matthíasi Jónassyni áttræðum. Ritstjóri Sigurjón Björnsson. Reykjavík 1983, 137-169.  

(xxxix) Helgi Skúli Kjartansson. Ungbörn þjáð af þorsta. Sagnir 10 (1989), 98-100.  

(xxxx) Ingunn Þóra Magnúsdóttir. Um blessaðan lífs-ávöxt á 17. og 18. öld. Sagnir 10 (1989), 58-62.  

(xxxxi) Símon Jón Jóhannsson og Bryndís Sverrisdóttir. Bernskan. Líf, leikir og störf íslenskra barna fyrr og nú. Reykjavík 1990.

(xxxxii) Loftur Guttormsson. Hjúskapur og hugarfar. Árstíðasveiflur hjónavígslna 1660-1860. Samanburðarathugun. Saga 30 (1992), 157-196.  

(xxxxiii) sbr. Loft Guttormsson. Staðfesti í flökkusamfélagi? Skírnir 163 (vor 1989), 9-40.  

(xxxxiv) Lára Magnúsardóttir. Íslendingar á 18. öld. Um veraldlegar hliðar mannlífsins. Ný saga 1993, 70-81.