Ljóðaþýðingar úr latínu fyrir 1800

Höfundur:

[Erindi sem flutt var 12. apríl 1997 á málþinginu Klassísk menning og ritstörf Íslendinga á 17. og 18. öld]

Í þeim tveim gerðum Jóns sögu hins helga Ögmundarsonar sem til eru má finna lýsingu á því er hinn helgi maður, sem hafði skóla á biskupssetri sínu á Hólum, kom að skólapilti er var að pukrast með latínubók nokkra. Og sem hinn sæli biskup sá að þetta var versabók "um kvenna ástir" eftir meistara Ovidíus, þar sem hann "kennir með hverjum hætti menn skulu þær gilja og nálgast þeira vilja", eins og segir í annarri gerðinni, fyrirbauð hann pilti umsvifalaust að "heyra þess háttar bók", enda taldi hann mannsins breysklega náttúru ærið framfúsa "til munuðlífs ok holdligrar ástar, þó at maðr tendraði eigi sinn hug upp með saurugligum ok syndsamligum diktum". Og þegar litið er yfir sögu ljóðaþýðinga úr latínu á Íslandi fram eftir öldum mætti vel ímynda sér að bann þetta hafi haft talsverð áhrif og menn hafi lengi vel hugsað sig um tvisvar áður en þeir drægju fram þesskonar bækur, jafnvel þótt það væri í laumi, og séð jafnvel fyrir sér hinn helga mann, strangan á svip með vísifingur á lofti.

Nú er auðvitað rétt að taka téðri frásögn eða frásögnum með ákveðnum fyrirvara, því í bókmenntum af þessu tagi, það er sögum helgra manna, er alla jafna mest lagt upp úr því að söguhetjan, hinn helgi maður eða kappinn, falli inn í ákveðið mynstur og sýni frómleik sinn og siðbreytni með ákveðnum dæmum sem ekki þurfa að vera sannsöguleg í þeim skilningi sem við leggjum í það orð. Og ekki verður frásögnin síður tortryggileg, ef skoðað er hve illa þessum tveim gerðum, sem báðar eru þýðingar á latneskum frumtexta, ber saman um heiti bókarinnar sem biskupinn fyrirbauð pilti að lesa og heyra, en hann er í báðum gerðum nafngreindur sem Klængur "er síðan varð biskup í Skálaholti". Í hvorugri þeirra er farið með nafn hinnar forboðnu bókar þannig að um fullan eða óbrenglaðan bókartitil eftir meistara Óvíd sé að ræða.

Í fyrri gerðinni, sem mun vera yngri, er bókin nefnd De arte, sem gæti verið De arte amatoria, en í þeirri síðari, sem mun vera eldri, epistolarum, en það gæti átti við Epistolae heroidum eða bréf sögufrægra kvenna. Af þessu mætti ætla að þeir sem þarna eru að verki þekki lítið til Óvíds Rómarskálds nema af afspurn og sama gildir trúlega um höfund Þriðju málfræðiritgerðarinnar þar sem Óvíds er einnig getið. Raunar eru lítil merki þess að ástarskáldin rómversku hafi gengið hér ljósum logum á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, því sú ást sem skáldbræður þeirra hér gera að yrkisefni á trúlega meira skylt við það sem miðaldamenn kölluðu "amour courtois" en það sem Óvid nefnir "lascivi amores". Ástarskáldin íslensku yrkja til kvenna á líkan hátt og hirðskáld til konunga en lýsa ekki nánum samskiptum við þær í smáatriðum eins og skáldbræður þeirra í Róm, og ekki virðist Kormákur Ögmundarson hafa gengið í ástarskóla Óvíds og numið þau brögð er kennd eru í Arte amatoria, ef skoðuð eru viðskipti hans við Steingerði, en hann má hins vegar teljast einskonar Katúllus okkar Íslendinga.

Nú er auðvitað öll latínukunnátta og latínumennt hingað til lands komin með kristni og þess því vart að vænta að heiðinn skáldskapur aftan úr rómverskri fornöld hefði þar einhvern forgang nema síður væri, að ekki sé talað um bækur með "sauruglegum og syndsamlegum diktum", og því skal engan undra að fyrstu þýðingar úr latínu sem sögur fara af hér á landi séu af guðrækilegum og heimspekilegum toga, svo sem þær sem finna má í bók er ber nafnið Þrjár þýðingar lærðar frá miðöldum og kom út árið 1989. Það sem við mundum kannski telja fremur skáldskaparkyns og á sér rætur aftur í heiðinni fornöld, svo sem Trójumannasögur eða Alexanderssaga, virðist fremur vera þýtt af sagnfræðilegum áhuga en bókmenntalegum, því menn hneigðust til að líta á hvort tveggja sem sagnfræði fremur en skáldrit, eins og kemur fram í því að menn gerðu meintum höfundi Trójumannasögu, Daresi Frýgverja, á þessum tímum sýnu hærra undir höfði en Hómeri hinum gríska, af því að menn töldu hann "meiri klerk" og trúverðugri heimild, þar sem hann átti jafnvel að hafa tekið þátt í Trójustríðinu sjálfur og hafði allar tölur um mannfall á hreinu. Engu að síður eru kaflar í áðurnefndum sögum sem rekja má til Eneasarkviðu Virgils, en einnig til Óvíds, bæði beint og óbeint, og þá til þeirra verka hans er kunnust voru, Epistolae heroidum og Metamorphoses, og þá hefur verið bent á tengsl milli Ars amatoria og Pamfílusar sögu, en þar mun vera um endursögn að ræða en ekki þýðingu.

Öðru máli gegnir hér um hina svonefndu Tvílínunga Katós, Disticha Catonis, sem ganga undir nafninu Hugsvinnsmál og eru í bundnu máli og með talsvert ljóðrænum blæ, en vafalaust hafa þau verið þýdd vegna uppbyggilegs boðskapar jafnt fyrir heiðna sem kristna. Þar fyrir utan hæfðu þau vel, vegna einfaldleika síns, til kennslu í skólum og voru notuð sem slík fram eftir öllu, en sem dæmi um vinsældir þessa Katós eða Hugsvinns er að þau voru endurþýdd í tvígang á 17. öld, og verður aftur vikið að því.

Í þessari fyrstu þýðingu téðra tvílínunga, sem talin er vera frá 13. öld, fer býsna vel á því að þar er beitt hætti Hávamála og Sólarljóða, ljóðahættinum, sem samsvarar á margan hátt hinum meitlaða grísk-rómverska frumhætti, þar sem skiptast á hexametur og pentametur, og tilvalinn eins og hann til að koma speki og heilræðum á framfæri, og hefur notkun hans hér nokkurt fordæmisgildi. Vissulega má finna sitthvað að Hugsvinnsmálum, og þótt margt hljómi býsna vel gætir víða ónákvæmni, svo sem í þessum upphafsorðum þar sem meginhugsunin fer forgörðum: að sé Guð andi skuli hann dýrkaður með hreinum huga í samræmi við það, og úr kvæðum skáldanna eða spekinganna, "Carmina", verður "Allra ráða". En fyrsta erindið (I.1) hljóðar svo:

Si Deus est Animus nobis ut Carmina dicunt:

Hic tibi praecipue sit pura Mente colendus

Allra ráða

telk þat einna bezt

af göfga æztan guð;

með hreinu hjarta

skaltu á hann trúa

og elska af öllum hug.

En latínan sjálf var einkanlega viðhöfð, þegar sungnar voru helgar tíðir í kaþólskum sið, jafnvel þótt menn skildu ekki allt sem sagt var. Þetta kemur meðal annars fram í íslensku kvæði frá síðmiðöldum er nefnist "Rósa", en þar segir:

Latínu með lesning hreinum

lærðir menn er drottni færðu

trúðag en vissi trautt hvað þýddist

tungan mundi hvað er þeir sungu …

Höfundur kvæðisins skilur ekki nógu vel latínu hinna lærðu manna og verður því að yrkja nýjan söng á sínu móðurmáli, og því koma fram þýdd eða frumort trúarleg kvæði á íslensku. Það gerist þó fyrst að ráði með siðaskiptum, þegar vegur þjóðtungna vex, þó svo að síst dragi úr lærdómi manna í fornmálunum með þeim. Hér er sett í gang heilmikið þýðingarverk, sem fram kemur að miklu leyti í Sálmabók Guðbrands biskups. Flestir þessara sálma eru frumortir á þýsku eða dönsku, en sum erlendu sálmaskáldin voru fastheldin á latínuna, þar á meðal félagi Lúthers Melankþon sem var húmanisti mikill og grísku- og latínumaður góður. En með því að þessir textar voru ætlaðir til söngs, voru þeir gerðir við ákveðin lög og þar með við bragarhætti sem sumir hverjir áttu sér langa sögu. Ber þar fyrstan frægan að telja Sapfóarháttinn svonefnda sem á sér rætur að rekja til skáldkonunnar miklu á Lesbey um 600 fyrir Kristsburð og hún beitti meðal annars, og það með talsverðum árangri, til að fá fulltingi ástargyðjunnar Afródítu þegar mikið lá við í ástarraunum hennar. Þessi frægi háttur samanstendur af fjórum ljóðlínum, þrem löngum, sem eru ellefu atkvæði með braghvíld á eftir fjórða atkvæði (-x-x//-xx-x-x), og einni stuttri í lokin sem er svonefndur adoneus og er fimmkvæður (-xx-x). Hátturinn hafði að vísu tekið talsverðum breytingum frá dögum Sapfóar og það þegar í Rómaveldi, er Hóras færir braghvíld langlínanna aftur um eitt atkvæði, en aðallega síðar, er málkerfið og grunnur bragfræðinnar riðlast og menn fara að mæla eftir áherslum í stað atkvæðalengdar. En þá taka menn, í stað hinnar sterku hrynjandi, að bæta rími inn í hina fornu hætti sem verður oft til þess að línuskipting riðlast sem og hrynjandi, en jafnframt styttist langlínan í Sapfóarhætti einhverra hluta vegna úr ellefu atkvæðum í tíu. Þetta afbrigði má finna í allmörgum þýðingum úr latínu frá 16. og 17. öld, og er gott dæmi þýðing eftir Jón Jónsson á Melum á texta eftir Seneca sem Jakob Benediktsson birtir í grein er hann nefnir "Carmen Sapphicum" og hefur þýðingin allt aðra hrynjandi en frumtextinn sem er kórrétt kveðinn eftir hinni rómversku gerð Sapfóarháttarins, þ.e. með braghvíld eftir fimmta atkvæði (-x-x-//xx-x-x):

Nemo confidat nimium secundis,

nemo desperet meliora lapsis;

ille qui donat diadema fronti

cum volet aufert.

Enginn oftreysti auðnunnar hreysti

örvænti enginn, þó aumur sé lengi;

sá í hefð setur, svipt henni getur,

ef mjög þig metur.

Hafi hinn forni Sapfóarháttur þannig orðið fyrir nokkru hnjaski í aldanna rás, þá gildir það ekki síður um annan enn eldri og enn virðulegri hátt, hið hómerska hexametur, sexliðunginn eða hetjulagið, og þá um leið afbrigði þess, svonefnt distíkon, tvílínunginn eða tregalagið sem áður var minnst á. Þegar hinir fornu rímlausu hættir sem byggðir voru á sterkri hrynjandi einni saman létu undan síga, hélt rímið einnig innreið sína inn í þennan hátt, og það ýmist sem innrím eða sem endarím eða sem hvort tveggja, þannig að úr varð eins konar rímþraut. Í stað þess að ein braghvíld í miðri línu skipti henni í tvennt, eins og í hinu forna hexametri, verða stundum úr henni þrjár línur sem eru tveir bragliðir hver og enda allar á rímorði, og því jafnvel hæpið að tala þar um sexliðunga eða hexametur, þótt hrynjandin sé alla jafna daktýlisk eða fingruð (-xx). Svo er um þann hátt sem Hallgrímur Pétursson nefnir því nafni, hexametur, og bæði þýðir og frumyrkir undir, en hjá honum er þó raunar um tvö afbrigði þessa háttar að ræða. Hinn fyrri hefur eina braghvíld og skiptist því í tvær línur en er vegna rímsins með annarlegri hrynjandi:

Öld óðum spillist,

uggleysinu dárlega fyllist …

Hin síðari er með innrími og endarími og skiptist því í þrjár línur eins og í kvæði sem hann kallar "Hexametrum" og er undir sama hætti og "Aldarháttur", og er hann þar kominn enn lengra frá hinu klassíska hexametri, þrátt fyrir nafnið:

Holdið of kátt

veit fyrir fram fátt,

hvað falla mun þægra,

reiðir sig þrátt

á megn sinn og mátt

eða mannorðið frægra …

Þessum sama hætti er beitt í kvæði sem gengur undir nafninu "Þýðingar úr latínu" án þess að neitt frumkvæði sé nefnt og hefst á orðunum:

Minstu að gá,

ef hefð þín er há,

að haldir hið rétta;

En það er fyrst á öld Hallgríms, þeirri sautjándu sem er réttilega nefnd lærdómsöld, að fornmenntastefnan haslar sér völl hér á landi fyrir alvöru og menn taka af kappi til við að þýða kvæði frá hinni klassísku fornöld. Merki þessa sjást meðal annars í tveim endurþýðingum á Disticha Catonis, hin fyrri er eftir Jón frá Bjarnarnesi en hin síðari eftir Bjarna Gizurarson í Fellsmúla. Hvað kom Jóni frá Bjarnarnesi til að þýða Kató upp á nýtt er ekki gott að segja, nema það hafi verið ætlun hans að gera það á skiljanlegri og nákvæmari hátt en höfundur Hugsvinnsmála, enda er þýðingin bæði í óbundnu máli og bundnu eða kannski réttar sagt bæði órímuð og rímuð, þannig að hið fyrrnefnda orkar sem drög að hinu. Sú ætlun kann að hafa tekist að vissu leyti, svo sem í upphafserindinu sem áður var vitnað til og þar sem sú samsvörun sem vera á milli Guðs anda og mannshugans verður ljós, þó svo að "hið hæsta allra ráða" sé hér enn til staðar:

Si Deus est Animus nobis ut Carmina dicunt:

Hic tibi praecipue sit pura Mente colendus.

Guð er Ande helgur og klaar

þui er hið hæsta allra ráða

hann að rækja af hreinum huga

og yfer allt framm að elska og dyrka

Guð er Ande einka hreinn

er því skylt að huör og einn

af klarum göfgfe huganum hann

hellst og best sem verða kann.

Þegar á heildina er litið má þó um þessa þýðingu segja að hún sé öllu óskáldlegri en Hugsvinnsmál og talsvert vanti þar og á skýrleika. Þýðing Bjarna er hins vegar athyglisverð að því leyti að hann beitir ferskeytluforminu á þann hátt að það hæfir vel hinu forna distíkon, ekki síður en ljóðaháttur Hugsvinnsmála, og hugsunin verður hér ólíkt beittari og skýrari, svo sem hér í upphafserindinu, og er nú "Carmina" þýtt með "skáldin":

Fyrst guð andi einn er sá

oss sem skáldin greina,

honum skaltu hreina tjá

hugarins dýrkun eina.

Bjarni lætur fylgja sem inngang að þýðingu sinni nokkur erindi, og gefur eitt þeirra til kynna að bannfæring Jóns helga á Óvíd, sem minnst var á í upphafi þessa máls, sé farin að láta undan síga og ný og frjálslyndari öld sé að renna upp:

Ovidius um Amors hót,

ef þig lystir fríða á snót,

lagnaðinn þér lýsa kann

lesa máttu sjálfur hann.

Sá sautjándu aldar maður sem skipar sérstakan heiðurssess í sögu þýðinga úr latínu er hins vegar Stefán Ólafsson klerkur í Vallanesi, þar sem hann ræðst til atlögu við sjálf höfuðskáld Rómverja, þá Hóras og Virgil, fyrstur manna hér á landi að því er menn hafa talið, þótt benda megi einnig á samtímamann hans Jón Sveinsson, bróður Brynjólfs biskups, sem mun hafa þýtt Hóras, og einnig styðst Guðmundur Andrésson allmikið við Metamorphoses Óvíds í Perseusrímum sínum. Árangur Stefáns er þó nokkuð misjafn eins og þær þýðingaraðferðir sem hann beitir. Þegar hann til dæmis þýðir kafla úr Georgica eða Búnaðarbálki Virgils og nefnir hann "Útmálun hins vænsta reiðhests", þá skiptir hann úr hexametri frumtextans yfir í gjörólíkan hátt íslenskan, sem er dróttkvæður háttur. Muninum á þessum tveim gerðum mætti lýsa þannig, að hexametur Virgils minni á gæðing sem skundar greitt um völl á stökki en dróttkvæði Stefáns á hross sem er lokað inn í girðingu og kemst hvergi út, þótt það prjóni og frísi af miklum krafti:

Continuo pecoris generosus pullus in arvis

altius ingreditur et mollia crura reponit

Vittu að folinn fullhátt

í feitri snemma akurbeit

keyrir hófa kynstór

og kringvefur bein slyng …

Betur tekst þó Stefáni til í háttarvali þegar hann þýðir kvæði Hórasar sem hefst á orðunum "Rectius vives" (en það er eftirtektarvert að hann þýðir aldrei upphafsorðin) þar sem hann notar frumháttinn, Sapfóarhátt, og á raunar heiðurinn af því að hafa endurreist þann mæta hátt með því að auka atkvæðafjölda langlínanna úr tíu í ellefu, en skiptir þeim í tvennt þannig að erindið verður sjö línur í stað fjögurra. Hrynjandin verður öll önnur, og er það sök sér, en öllu verra að Stefán finnur sig knúinn til að bæta rími inn í háttinn og það meira að segja sama rími í öllum sjö línunum. Er það einkum tiltakanlegt í öðru erindinu, þar sem einmitt meðalhófið er lofsungið, hve lítið hóf þýðandinn kann sér í notkun ríms. En vera má að sjö rímorð hafi ekki þótt óhóf á þessum tíma, því Hallgrímur Pétursson á það til að nota sama rímið 21 sinni, eins og í kvæði sem hann nefnir "Vorkvæði". En svo hljóðar annað erindið úr "Rectius vives":

Auream quisquis mediocritatem

Diligit, tutus caret obsoleti

Sordibus tecti, caret invidenda

Sobrius aula.

Hver, sem með geð hægt,

hóf elskar gullvægt,

hans fær ei hug lægt

hreysið fullt af órækt,

eða sér að krækt

öfundina við flækt

kóngshalla hoffrækt.

Öðru máli gildir um þýðingu Stefáns á kvæðinu "Felix nimium prior aetas" eftir Bóethíus sem hann nefnir "Um hina fyrri og þessa öld". Þar skiptir hann reyndar enn um hátt en grípur hér til háttar sem er honum tamur og beitir ríminu hóflega, þannig að lítill þýðingarbragur er á kvæðinu. Það er því kannski engin furða að menn hafi fram eftir öllu talið kvæðið frumkveðið og jafnvel með bestu kvæðum Stefáns, þar til Richard N. Ringler benti á hvaðan kvæðið væri komið í grein sem hann birti á námsárum sínum hér árið 1966. Þetta sýnir hve margt er ókannað í þessum efnum, en það hefur kannski villt mönnum sýn að Stefán setur óforvarendis Heklu inn í kvæðið í stað Etnu, og hefur sá þýðingarmáti orðið ýmsum öðrum fyrirmynd.

Það mætti hiklaust nefna Stefán Ólafsson brautryðjanda eða frumkvöðul ljóðaþýðinga úr latínu hér á landi og helsta merkisbera klassískrar ljóðlistar á 17. öld, en þó virðist sem verðugir eftirmenn láti á sér standa á 18. öld. Að vísu má nefna hér þýðingar eftir séra Gunnar Pálsson (úr 4. bók Eneasarkviðu) og séra Jón Jónsson á Möðrufelli (Rímur af Eneasi sterka) úr verkum Virgils. Einnig mætti nefna þýðingar eftir Árna Böðvarsson úr Amores og úr 6. bók Ummyndana Óvíds eða Metamorphoses (Um Tereif og Fílómelu) eða Björn Halldórsson í Sauðlauksdal á 5 erindum um Faeþon úr sömu bók undir braghendu-rímnalagi, auk "Eftirlíkingar um hungrið" eftir Benedikt Jónsson í Bjarnarnesi og loks þýðingu Jóns Bergmanns Steinssonar á ljóði eftir Katúllus.

En hin svonefnda upplýsingaröld hefur sínar takmarkanir sem ollu því að fornmenntir urðu kannski svolítið hornreka, miðað við 17. öldina, og menn ginnkeyptari fyrir nýrri og nýstárlegri hlutum. Um leið og höfuðskáld réðust í sannkölluð stórvirki í þýðingu verka eftir Milton, Klopstock og Pope, þýða þau helst ekki nema smábrot úr latínukvæðum og fara allfrjálslega með og hirða ekki alltaf um að tilgreina höfunda eða að um þýðingu sé að ræða. Stundum er latneski textinn látinn fylgja með eins og til skilningsauka, og veitir oft ekki af, eins og sjá má á þessari þýðingu sjálfs jöfurs íslenskra þýðenda, Jóns Þorlákssonar á Bægisá, á línum úr bréfum Hórasar, því að latínan kynni að verða sumum ómissandi hjálpartæki til að komast fram úr íslenskunni:

Non domus et fundus, non aeris acervus er auri

ægroto domini deduxit corpore febris -

Horat. Epist. I, 2, 47-48

Salur ei né óðöl

öldusól eða margföld

dalahrúga kann kvöl

köldu skilja við höld.

Þó þýðir hann í heilu lagi eitt af kvæðum Hórasar sem hefst á orðunum "Quid dedicatum …" og kemur því meira að segja upp í átta erindi í stað sex. Sú samþjöppun sem einkennir Hóras fer þar vitaskuld forgörðum, eins og sést á dæminu hér að neðan. Enn sem fyrr er rími óspart beitt, og það raunar innrími, en ólíkt endarími Stefáns verður það til að auka á þann léttleika sem er yfir þýðingunni og hæfir betur hinu rómverska gullaldarskáldi en þyngsl Stefáns. Og það gerir þá ekkert til að orðafjöldinn meir en þrefaldist í höndum Jóns og að úr sjö orðum latneska textans verði tuttugu og tvö á íslensku:

… nec turpem senectam

degere nec cithara carentem

Enginn falli æru galli´ á aldinn mig!

gamli kallinn gleðji sig!

hjá mér gjalli hljómurinn snjalli, harpan iðuglig,

alt á efsta stig!

Samtímamaður Jóns, Sigurður Pétursson sýslumaður og leikritaskáld hefur sama háttinn á og þýðir búta úr kvæðum Hórasar undir yfirskriftinni "Eftir Hóraz", og er jafnvel eins og hann hafi fleira en eitt kvæði í huga í sjóferðabæninni "Ó skip, þú tekur ábyrgð í / minn eina vin frábæra", þar sem koma við sögu: I.3 (Sic te diva …) og I.14. (O, navis …) Þetta er auðvitað gott og blessað, en sá þeirra 18. aldar manna sem lyftir þýðingum úr latínu á hærra stig var Benedikt Gröndal eldri, enda var hann menntaður í klassískum fræðum og fyrstur manna hér á landi svo vitað sé til að þýða ljóð úr grísku. Þetta sjáum við á þýðingu hans á kvæði er hefst á orðunum "Donec gratus eram tibi" eftir Hóras sem er undir Asklepíadesarhætti II. Nýstárlegt er hér að hrynjandin hefur tekið völdin en rímið er orðið aukaatriði, og Benedikt tekst hér í senn að fylgja að mestu hinni upphaflegu hrynjandi og halda klassískum einfaldleika frumtextans:

Donec gratus eram tibi,

Nec quisquam potior brachia candidae

Cervici iuvenis dabat:

Persarum vigui rege beatior.

Fyrrum meðan ég þekktist þér,

og ekki annar neinn

ástsælli yngissveinn

lagði þér hönd um ljósan háls,

lífs míns blómgaðra bar

en buðlungs Persa var.

Það vill svo skemmtilega til að það er tengdasonur Benedikts, Sveinbjörn Egilsson, sem verður arftaki hans á sviði klassískra þýðinga og stígur skrefið til fulls með því að gera þýðingu þar sem eingöngu er beitt hrynjandi (auk stuðla að sjálfsögðu) og öllu rími sleppt og er því sem sagt undir "latínska laginu", en það er þýðing Sveinbjarnar á "Solvitur acris hiems" eftir Hóras eða "Þiðnar á vorinu". Og það eru þeir Sveinbjörn og Bjarni Thorarensen sem halda þýðingum úr latínu áfram með mestum glæsibrag, en það er víst ekki við hæfi að taka þær fyrir hér á vegum 18. aldar félagsins, því báðir eru fæddir það seint á þeirri ágætu öld eða undir aldamótin 1800, og hvorugur þeirra hefur byrjað að yrkja þrévetur svo vitað sé, hvað þá að þýða úr latínu. Það er hins vegar rétt að minnast hér í lokin á mesta stórvirki í þýðingum úr latínu á Íslandi til þessa og mun vera unnið í kringum aldamótin 1800 - hvorum megin veit ég ekki gjörla, sennilega báðum megin - en það er þýðing Jóns sýslumanns Espólíns á Myndbreytingum eða Metamorphoses Óvíds eins og þær leggja sig (15 bækur) og það í bundnu máli, en umfjöllun um þá þýðingu verður að bíða betri tíma og rýmri. 

Heimildir

Benedikt Gröndal Jónsson. 1833. Kvæði. Viðeyjarklaustri.

Einar Ól. Sveinsson. 1949. "Hexametrum". Skírnir, 123. ár: 178-185.

Gudrun Lange. 1992. "Andleg ást: arabísk-platónsk áhrif og "integumentum" í íslenskum fornbókmenntum?" Skírnir, 166. ár: 85-110.

Halldór Hermannsson. 1958. The Hólar Cato. Edited with an introduction and two appendices. Islandica 39. Ithaca, N.Y.

Hallgrímur Pétursson. 1887-1890. Sálmar og kvæði. Reykjavík.

Hermann Pálsson. 1985. Áhrif Hugsvinnsmála á aðrar fornbókmenntir. Studia Islandica 43. Reykjavík.

Jakob Benediktsson. 1982. "Carmen Sapphicum". Eldur er í norðri: 177-180. Reykjavík.

Jón Helgason (útg.). 1936-38. Íslensk miðaldakvæði. Kaupmannahöfn.

Jón Þorláksson. 1919. 1744-1819-1919, Dánarminning. Reykjavík.

Jóns saga helga. 1948. Byskupa sögur II. Hólabyskupar. Reykjavík.

Ringler, Richard N. 1966. "Fyrirmynd kvæðisins "Um þá fyrri og þessa öld"". Mímir 5. ár 1. tbl.:20-22.

Sigurður Pétursson. 1844. Ljóðmæli. Reykjavík.

Stefán Ólafsson. 1948. Ljóðmæli. Reykjavík.

Þórhallur Þorgilsson. 1995. Klassísk áhrif í íslenskum ritverkum að fornu og nýju. Einar G. Þórhallsson skráði. Ljósrit.