Rannsóknir á bókmenntum 18. aldar

Höfundur:

Þegar ég var að lesa undir meistarapróf í íslenskum bókmenntum fyrir þrjátíu árum, var ekki mikið lestrarefni að hafa um bókmenntir 18. aldar eða menningarsögu, þótt ágæt yfirlit með hugmyndasögulegum bakgrunni væri eftir Þorkel Jóhannesson í Sögu Íslendinga og margt mætti læra af ritum Vilhjálms Þ. Gíslasonar. Steingrímur J. Þorsteinsson, kennari minn, hafði einnig í ritum sínum Jón Thoroddsen og skáldsögur hans og Upphaf leikritunar lagt grunn að frekari rannsóknum á þessum bókmenntagreinum og vakið athygli á nýmælum 18. aldar. Mikil þörf var engu að síður á rannsóknum á mörgum þáttum bókmenntanna, m.a. til að varpa ljósi á þau straumhvörf sem urðu á öldinni, þegar svo mátti virðast um skeið að íslenskar bókmenntir væru að deyja út í móðu harðinda og andlegs doða, en nýjar hugmyndir og viðhorf tóku síðan á eymdartímum að gægjast upp úr öskunni, hugmyndir og viðhorf sem eru nær hugsunarhætti tuttugustu aldar en nokkuð sem áður hafði komið fram í íslenskum bókmenntum.

 

Þessi óvænti og oft dálítið kyrkingslegi nýgræðingur spratt upp af erlendu útsæði, og ef það hefði ekki komið til, er hætt við að íslenskar bókmenntir hefðu lifað undarlegu og dauflegu lífi um langt skeið, jafnvel enn í dag. En nýgræðingurinn tók við sér, og brátt komu nýjar jurtir sem skyggðu á hann. Lengi skipti það miklu máli fyrir mat Íslendinga á upplýsingarstefnunni hve alþjóðleg hún var í afstöðu sinni og áhugasamari um samtíð og framtíð en fortíðina. Sú þjóðlega rómantík sem tók við og hefur átt sterkust ítök í þjóðlífi okkar fram undir síðustu ár, var í ýmsu andóf gegn upplýsingunni: þjóðleg og bundin gullöld í fortíðinni. Upplýsingin hefur lengst af staðið í skugga hennar, og þó voru frelsishetjurnar góðu, Tómas Sæmundsson og Jónas Hallgrímsson, börn upplýsingarinnar og skildu það sjálfir.

Þegar ég lít nú til baka yfir þann tíma sem liðinn er síðan ég sat í fyrrgreindum próflestri, blasir við á prentuðum bókum æðimikill afrakstur rannsókna á bókmenntum og menningu 18. aldar - reyndar mætti einnig nefna margar óprentaðar prófritgerðir sem er að finna innan veggja í Landsbókasafni - Háskólabókasafni, og auðvitað er ýmislegt reist á þeim sem annars staðar hefur birst. Ég nefni það helsta sem mér kemur í hug af fræðastarfi síðustu tveggja áratuga, en tímaritsgreinar verða þó að mestu út undan. Jón Þorláksson er eitt merkasta skáld upplýsingartímans, og í útgáfu Heimis Pálssonar á úrvali úr kvæðum hans og þýðingum, sem kom út árið 1976, er skáldið tengt við tímann í mjög læsilegum inngangi. 1982 kom Upplýsing og saga sem Ingi Sigurðsson bjó til prentunar með fjölbreyttu úrvali úr sagnaritum upplýsingarmanna og inngangi þar sem gerð er grein fyrir helstu hugmyndum í ritum upplýsingarsagnfræðinga og uppruna þeirra. Sýnishornin eru sem vænta má frá tímabilinu beggja vegna aldamóta 1800. Ingi hefur ekki gert endasleppt við upplýsingaröld, því að hann ritstýrði ritgerðasafninu Upplýsingin á Íslandi, sem kom út árið 1990, þar sem komið er að efninu úr ýmsum áttum, m.a. með ritgerðum af sviði bókmenntasögunnar eftir Helga Magnússon og Helgu K. Gunnarsdóttur og mörgum öðrum prýðilegum ritgerðum um menningarsögu. Þá er nýlega komin út bók Inga: Hugmyndaheimur Magnúsar Stephensens. Þar birtist skýr mynd af hugmyndum þessa manns sem lét til sín taka á svo að segja öllum sviðum andlegs lífs. Magnús galt valdastöðu sinnar og ýmissa skapgerðarbresta hjá samtímamönnum, einkum þeim sem yngri voru, en smátt og smátt hefur verið að koma betur í ljós hvílíkur framfaramaður hann var. Lengi hafa menn hæðst að stíl hans og málnotkun, en einnig á því sviði hefur hann margt sér til málsbóta.

Fleiri sagnfræðingar en Ingi hafa verið að birta mikilvægar rannsóknir af sviði menningarsögu, sem snerta undirstöðu bókmenntarannsókna. Þar vil ég sérstaklega nefna ritgerðir Lofts Guttormssonar um fræðslu- og uppeldismál, bæði í safnritum eins og Upplýsingunni á Íslandi og Íslenskri þjóðmenningu VI. bindi, og sérstaklega út gefnar, ekki síst rannsóknir á lestrar- og skriftakunnáttu. Einnig er ástæða til að minna á verk heimspekinga og guðfræðinga sem eru bókmenntafræðingum harla nýtileg. Heimspekingarnir kynntu mikilvæg gögn um hugmyndasögu 18. aldar í hausthefti Skírnis 1993 með þýðingum á skrifum Kants, Foucault og Habermas um upplýsinguna og ritgerð eftir Magnús Diðrik Baldursson. Fræg rit upplýsingarheimspekinga hafa einnig komið út í lærdómsritum Hins íslenska bókmenntafélags. Af verkum guðfræðinga er mér efst í huga prýðileg ritgerð Hjalta Hugasonar um íslenska trúarhætti í Íslenskri þjóðmenningu V. bindi (1988), auk ritgerðar hans um guðfræði 18. aldar í Upplýsingunni á Íslandi, og ný útgáfa Gunnars Kristjánssonar á Vídalínspostillu, sem kom út árið 1995 með rækilegri ritgerð um biskup og postilluna, bæði efni hennar og stíl. Vídalínspostilla stendur að mörgu leyti eins og brúarstólpi sautjándualdarmegin við þá gjá sem er milli lærdómsaldar og upplýsingaraldar. Hinumegin er Eggert Ólafsson. Samlíkingin við brúarstólpa er ekki valin af handahófi; hann er við mörkin, frá honum er útsýn aftur og fram, og hann ber uppi ferðina fram á við. Ritgerð Gunnars hjálpar manni að skilja þetta. Þótt meistari Jón standi traustum fótum í lúterska rétttrúnaðinum eða barokkguðfræðinni, gætir í verki hans einnig áhrifa píetisma, stefnu sem hér hafði veruleg áhrif á 18. öld, og eitthvað mun meistarinn hafa þekkt til hugmynda upplýsingarinnar. Af sviði bókmenntafræði og hugmyndasögu er rit Árna Sigurjónssonar um Bókmenntakenningar síðari alda, 1995. Þar eru hvorki meira né minna en 150 blaðsíður um bókmenntakenningar á 18. öld, að mestu leyti yfirlit yfir evrópska bókmenntafræði, en kemur einnig að íslenskum ritum, viðhorfum upplýsingarfrömuðanna Eggerts Ólafssonar, Hannesar Finnssonar og Magnúsar Stephensen. Þá hefur Sveinn Einarsson fjallað rækilegar en áður hefur verið gert um leiklist aldarinnar í fyrsta bindi verks síns um íslenska leiklist, sem kom út 1991, bæði um leiklistariðkun í stólsskólunum og leikritun Sigurðar Péturssonar. Yfirlit yfir sama efni eftir Árna Ibsen, að nokkru leyti reist á rannsókn Sveins, er síðan að finna í III. bindi Íslenskrar bókmenntasögu sem kom út nú fyrir jólin. Um tungutak 18. aldarhöfunda, stíl þeirra, er síðan fjallað í Íslenskri stílfræði sem út kom 1994. Þórir Óskarsson lýsir þar stíl meistara Jóns, stíl á embættisbréfum og skjölum, stíl sjálfsævisagna og upplýsingarfrömuða.

Úti í Evrópu var klassísisminn, eða neo-klassísisminn, áhrifamikil listastefna á 18. öld í kjölfar og stundum í bland við barokklist, en á Íslandi var naumast nógu hátt til lofts eða vítt til veggja til að heiðríkja klassísismans eða formauðgi barokktímans næðu að setja svip sinn á bókmenntirnar, hvað þá byggingarlistina. Eins og löngum fyrr er hliðstæðna þó ekki síst að leita í bókmenntum við það sem auðugast er í erlendum samtíma. Þótt Sólarljóð beri af öðrum íslenskum trúarkveðskap miðalda að frumleika, er það glæsilegur stíll og bygging Lilju sem færir heim sanninn um að andlegt líf Íslendinga á miðöldum var evrópsk menning, tjáning sömu formvitundar og birtist í gotneskum dómkirkjum. Passíusálmarnir eru að þessu leyti hliðstæða Sólarljóða. Einstæður og frumlegur vitnisburður um það sem verðmætast var í menningu Norðurevrópskra mótmælenda. Hliðstæða Lilju er hins vegar Vídalínspostilla, og fyrir því finnur maður rök bæði í formála Gunnars Kristjánssonar og stílkönnun Þóris Óskarssonar. Í raun og veru er postillan í senn ágætt dæmi um evrópskan klassísisma og barokkguðfræði.

Flestir sem fást við 18. öldina beina sjónum annaðhvort að því gamla eða því nýja, því gamla sem heyrir til heimi siðaskiptanna, Hallgríms og Jóns Vídalíns, eða því nýja sem byrjar með Eggert Ólafssyni og Hannesi Finnssyni og heldur áfram með hinum framfarasinnuðu upplýsingarmönnum, amk. til Tómasar Sæmundssonar, og ef grannt er skoðað fram á þessa öld. Upplýsingin er byrjun svo margra hluta að það er freistandi að skoða hana í ljósi þess sem síðar varð. Matthías Viðar Sæmundsson virðist hins vegar heillaðri af átjándu öldinni sjálfri og andstæðum hennar en flestir aðrir sem um hana hafa skrifað á íslensku. Þetta kemur ekki eingöngu fram í því sem hann skrifar í Íslenska bókmenntasögu III. bindi, heldur einnig í ýmsum fyrri skrifum hans, og óbeint í ýmsum verkum nemenda hans.

III. bindi Íslenskrar bókmenntasögu hefst á upplýsingunni og nær sú greinargerð yfir á þriðja hundrað blaðsíðna. Mest af því hefur Matthías Viðar samið, en í lokin er fremur stutt umfjöllun Páls Valssonar um ljóðlist tímabilsins. Kaflar Matthíasar einkennast af því að þar er ýmislegt efni tekið til umfjöllunar, sem lítt eða ekki hefur verið sinnt áður af fræðimönnum, og efnið allt er tekið nýstárlegum tökum. Andstæðum 18. aldar er lýst sem átökum tveggja heimsmynda, þekkingarkerfa, í anda franska spekingsins Michel Foucault. Umfjöllun Matthíasar er víðfeðm, en mest nýnæmi er að rannsóknum hans á sjálfsævisögulegum ritum, þar sem mest fer fyrir Jóni Steingrímssyni, þótt fleiri komi við sögu, og á sagnaskáldskap, sem reynist fjölbreyttari og þroskaðri en búast mátti við.

Sjálfsævisögur og ferðasögur eru kjörið viðfangsefni þess sem leitar að breyttum sjálfsskilningi, en á 18. öldinni beindist athygli rithöfunda æ meira frá hinni almennu mannshugmynd barokkguðfræði og klassísisma að innra lífi einstaklinga, og þessa hneigð finnur Matthías í sjálfsævisögulegum ritum íslenskum, en hann sýnir líka vel hvernig Íslendingar eiga á þessari öld í erfiðleikum með að losa sig úr viðjum staðlaðrar sjálfsmyndar fortíðarinnar, og tekst það raunar ekki nema að litlu leyti. Hér vísar Matthías til rannsókna ýmissa nemenda sinna, sem hann hefur notið góðs af, ekki síst meistaraprófsritgerðum þeirra Eiríks Guðmundsonar og Steinunnar Ingu Óttarsdóttur.

Kaflinn um sagnaskáldskap 18. aldar fjallar um mörg efni sem áður hafa verið könnuð eða amk. nefnd í yfirlitsritum og önnur sem lítt hefur verið getið á prenti. Þau hafa nú verið lesin á nýjan leik og sett inn í víðara samhengi. Sagnagerð tímans hefur verið mjög bundin fyrirmyndum úr þeim sagnaheimi sem Íslendingar höfðu dýrkað um aldir, heimi rómönsunnar, og hafa því harla miðaldalegan blæ. En skáldsagan var á þessari öld í mótun í Evrópu, og áhrifa frá þeirri þróun og frá hugmyndum upplýsingarinnar gætir skýrt í verkum tveggja höfunda, þeirra Eiríks Laxdal og séra Jóns Hjaltalín. Á verkum þeirra hafa nýlega verið gerðar ágætar rannsóknir sem Matthías hagnýtir sér. María Anna Þorsteinsdóttir skrifaði undir handleiðslu hans meistaraprófsritgerð um Sögu Ólafs Þórhallasonar, sem nú er komin út endurskoðuð í Studia Islandica: Tveggja heima sýn. Saga Ólafs Þórhallasonar og þjóðsögurnar. Þar er rakið hvernig Eiríkur Laxdal spinnur frumlegan skáldsöguvef úr hugmyndum upplýsingarinnar og íslenskum þjóðsagnaarfi og skapar í leiðinni fyrstu íslensku skáldsögupersónu sem því nafni má nefna, mann sem breytist við fjölbreytta lífsreynslu og þroskast til sátta við sjálfan sig og samfélagið. Matthew Driscoll hefur í doktorsritgerð sinni um sagnagerð séra Jóns Oddssonar Hjaltalín greint hvernig sögur hans eru mótaðar af rómönsuforminu, en taka þó að lokum að þróast í átt til skáldsögu. Hann leiðir einnig í ljós kynni séra Jóns af ritum evrópskra upplýsingarmanna og áhrif frá hugmyndum þeirra.

Ljóðlist upplýsingaraldar er þekktari en lausa málið, og hún er að mörgu leyti fjarlæg nútíðarsmekk. Skáld tímans fá heldur ekki mikið rúm í Íslenskri bókmenntasögu og gjalda þess hér nokkuð eins og löngum áður hve langtum framar næstu kynslóðir skálda standa þeim að listfengi. Páll Valsson dregur þó ágætlega fram einstaklingseinkenni fjögurra höfuðskálda tímans, þeirra Eggerts Ólafssonar, Benedikts Jónssonar Gröndals, Sigurðar Péturssonar og Jóns Þorlákssonar, en allir eru þeir, hver með sínum hætti, fulltrúar fyrir það sem ég kallaði hér í upphafi dálítið kyrkingslegan nýgræðing.

Skrif Matthíasar Viðars um bókmenntir átjándu aldar í Íslenskri bókmenntasögu eru mestu tíðindi í bókmenntarannsóknum á þessu tímabili frá síðari árum. Hann skrifar af ástríðufullum áhuga um öldina og starir djúpt í sál hennar, en sá sem starir fast á eitthvað sér jafnan óskýrar það sem í kringum er. Í lýsingu sinni á hinni eldri heimsmynd leggur Matthías einhliða áherslu á það sem er skelfilegt og sjúklegt í andlegu lífi 17. og 18. aldar. Það má telja gagnlega leiðréttingu á ósjálfráðri tilhneigingu okkar til að loka augum fyrir því sem óþægilegt, jafnvel skelfilegt er að horfa á. En einhvern veginn lifðu menn þó af ógnir helvítispredikana og héldu geðheilsu sinni, svona flestir amk., og það má benda á mikilvæga þætti í bókmenntum 17. og 18. aldar sem eru mun bjartari og jákvæðari en þeir sem Matthías dregur fram. Matthías er sem fyrr segir undir mjög miklum áhrifum frá franska heimspekingnum og sagnfræðingnum Michel Foucault, og leynir því hreint ekki. Þetta verður óneitanlega á kostnað annarra fræðikenninga um öldina, annarra túlkana. Sögutúlkun Foucaults er frumleg og mikilvæg og dregur fram mikilvægar breytingar í þróun heimsmyndar eða hugsunarháttar Evrópumanna, en þó virðist mér ljóst að hann ýki andstæður til að skerpa myndina, og þegar farið er að varpa þessum ýktu andstæðum upp á tjald sem sýnir íslenska sögu, óskaplega hægfara á þessu skeiði, kann það að ýta undir tilhneigingu til að mikla fyrir sér texta sem virðast styrkja kenninguna án þess að líta á mikilvægi þeirra í réttu hlutfalli við heildina.

Því fer fjarri að ég harmi þessi Foucault-áhrif. Ég held að þau hafi verið frjó, en ég vil þó taka niðurstöðum með fyrirvara. Það er hollt mótvægi að lesa rit þau sem sagnfræðingar og fleiri hafa verið að birta á umliðnum árum og ég hef nefnt hér. Ritgerðir Inga Sigurðssonar og annarra höfunda í ritgerðasafninu Upplýsingin á Íslandi, svo að dæmi séu tekin, eru etv. ekki innblástur fyrir bókmenntamenn á sama hátt og ritsmíðar Matthíasar, en þau opna augu okkar betur fyrir breiddinni í þeim erlendu áhrifum sem hingað bárust og fyrir hinu flókna ferli menningarsögunnar á 18. öld og öndverðri 19. öld.

Nokkur nýleg rit um menningarsögu og bókmenntir 18. aldar

A. Prentuð rit

Árni Sigurjónsson: Bókmenntakenningar síðari alda. Rvk. 1995.

Halldór Guðmundsson, ritstj.: Íslensk bókmenntasaga III. Rvk. 1996. Kaflar eftir Matthías Viðar Sæmundsson, 21-217, Pál Valsson, 219-239, og Árna Ibsen, 592-612.

Ingi Sigurðsson: Hugmyndaheimur Magnúsar Stephensens. Rvk. 1996.

Íslensk þjóðmenning. Ritstjóri Frosti F. Jóhannsson V. Rvk. 1988 (Hjalti Hugason). VI. Rvk. 1989 (Steingrímur Jónsson, Loftur Guttormsson).

Jón Þorláksson: Kvæði frumort og þýdd. Úrval. Heimir Pálsson bjó til prentunar. Rvk. 1976.

Loftur Guttormsson: Uppeldi á upplýsingaröld. Um hugmyndir lærdómsmanna og hátterni alþýðu. Rvk. 1987.

María Anna Þorsteinsdóttir: Tveggja heima sýn. Saga Ólafs Þórhallasonar og þjóðsögurnar. Studia Islandica 53. Rvk. 1996.

Skírnir, haust 1993.

Sveinn Einarsson: Íslensk leiklist I. Rvk. 1991.

Upplýsing og saga. Sýnisbók sagnaritunar Íslendinga á upplýsingaröld. Ingi Sigurðsson bjó til prentunar. Rvk. 1982.

Upplýsingin á Íslandi. Tíu ritgerðir. Ritstjóri Ingi Sigurðsson (sjá einkum ritg. eftir Inga Sigurðsson, Hjalta Hugason, Loft Guttormsson, Helga Magnússon og Helgu K. Gunnarsdóttur). Rvk. 1990.

Vídalínspostilla. Gunnar Kristjánsson bjó til prentunar. Rvk. 1995.

Þorleifur Hauksson og Þórir Óskarsson: Íslensk stílfræði. Rvk. 1994.

 

B. Óprentaðar prófritgerðir

Eiríkur Guðmundsson: "Gefðu mér veröldina aftur." M.A. ritg. 1995. Á Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni.

Steinunn Inga Óttarsdóttir: "Þetta er ei annað en eins manns sjóferðaskrif." Annáll íslenskra reisubóka frá upphafi til 1835. M.A. ritg. 1996. Á Landsbókasafni - Háskólabókasafni.

Matthew Driscoll: The Sagas of Jón Oddsson Hjaltalín. Studies in the production, dissemination, and reception of popular literature in 18th- and 19th- century Iceland. Drsritg. Oxford 1994.