„Saungvar skrýtnir og satýrískir“

Satíra og viðhorf til skemmtana hjá Eggerti Ólafssyni

Höfundur:

[Byggt á erindi sem flutt var 14. febrúar 1998 á málþinginu Erlend áhrif og þýðingar í bókmenntum átjándu aldar]  

Eggert Ólafsson, skáld, náttúrufræðingur og þjóðhetja með meiru, var með menntaðri mönnum sinnar tíðar. Hann fékkst ekki mikið við þýðingar, einna helst að hann þýddi eitt og eitt kvæði eftir latnesk uppáhaldsskáld sín og einnig má nefna að hann þýddi útdrátt úr siðaspekiriti eftir spænskan jesúíta, Gracian að nafni, sem var uppi á 17. öld. Áhugi Eggerts á heimspeki og skyldum greinum kemur fram í þessari þýðingu hans, en áhugasvið hans lágu víða. Yfirleitt koma erlend áhrif fram á óbeinni hátt í verkum Eggerts en með beinum þýðingum. Flestir þekkja brautryðjandastarf hans og Bjarna Pálssonar í íslenskri náttúrufræði en Eggert var nýjungamaður á fleiri sviðum en í náttúruvísindunum. Hér verður sjónum beint að skáldskapnum og þá sérstaklega að satírískum kveðskap Eggerts og einnig viðhorfi hans til skemmtana.

Eitt helsta einkenni á kveðskap Eggerts er gagnrýnin afstaða. Hann kallar sjálfan sig víða "satýriker", þann sem notar háð og spott til að gagnrýna menn og málefni, á uppbyggilegan hátt. Hann lofar "saungva góða, skrítna og satýríska, sem lasta illt en lofa gott siðferði." (Eggert Ólafsson 1757:265). Svoleiðis söngvum hafði hann kynnst hjá uppáhaldsskáldum sínum latneskum eins og hinum satíríska Hórasi, og Martialis sem orti um mannanna lesti (en Eggert þýddi nokkur kvæði eftir hann). Satíra átti sér fornar rætur en hún átti sér einnig blómaskeið á upplýsingaröld og varð mjög vinsæl þá hvort sem var í ljóði eða lausu máli, enda fullnægði hún þörf upplýsingarmanna fyrir vitræna samfélagsgagnrýni og aðgengilegan texta. Satíra þeirra var yfirleitt bjartsýn enda trúðu þeir að hægt væri að byggja upp betra samfélag og bæta hegðun manna.

Þegar Eggert safnaði saman kvæðum sínum þá flokkaði hann þau vandlega niður og skipti þar mestu efni þeirra. Og það eru hlutföllin milli alvöru og gamans sem ráða úrslitum, eins og segir í formála hans: "Fyrst standa kvæði í tómri alvöru, þau eru annaðhvort almennilig, um siðbætr og heimsádeilur; eðr sérlig um eina þjóð, vissa menn, verk og tilfelli; í annari röð standa kímilig kvæði, þau eru í réttri raun tóm alvara með heimsádeilum; en alvaran er fólgin ýmist undir ýkjum eðr dæmisögum. Þá koma hin þriðju kvæðin (serio-jocosa), hvar efnið er saman alvara og gaman, einsog í þeirri fjórðu röð eru einúngis gaman-kvæði; þó meingast stundum þarmeð nokkur alvara." (Eggert Ólafsson 1974:3). Þessa flokkun fær Eggert frá dönskum prófessor, Wadskiær að nafni, sem hafði skrifað bók um skáldskaparlistina (sjá grein Sveins Yngva Egilssonar). En það sem er merkilegt í þessu er að Eggert skuli telja gamansemi gildan þátt í því að koma boðskap sínum á framfæri og má teljast nýjung í íslenskum skáldskap þessa tíma. Grín og glens var ekki efst á vinsældarlista presta og embættismanna hér á landi um miðja 18. öld. Reyndar viðurkennir Eggert seinna meir að hann hefði mátt vera heilagri á stundum í kveðskap sínum og iðrast þess að hafa "móralíserað" og kennt siðalærdóm með gamni og straffað lesti með skopyrðum í kvæðinu "Endr-kviðu" sem hann yrkir 1768 (dánarárið) en þar lítur Eggert yfir skáldskap sinn í ljósi þeirrar trúarsannfæringar sem greip hann síðustu árin. Það hefði verið meira í anda frelsarans að sleppa öllu gríni en Eggert afsakar sig með því að segjast hafa meint vel.

Eggert er ófeiminn við að nota sér ævintýri eða fabúluna í sumum kvæða sinna. Í þessu á hann samleið með mörgum samtímamönnum sínum í bókmenntum upplýsingaraldar. Í kvæðinu "Tvídægra", þ.e. kvæðinu um Sukkudokkana, er hann undir áhrifum frá sögum eins og Nikulás Klím (1741) eftir Ludvig Holberg en góðvinur Eggerts, Jón Grunnvíkingur, hafði þýtt söguna 1745. Sagan af Nikulási Klím er af ætt ferðaævintýrasagna eins og Ferðir Gúllivers eftir Jonathan Swift; frásagnir af mönnum sem ferðast til staða sem eru fullkominn tilbúningur og lenda í ótrúlegum ævintýrum. Undir yfirbragði ævintýrsins felst hinsvegar ádeila á samtímann og siðferði manna. Samfélagsgagnrýni af þessu tagi höfðaði mjög til upplýsingarmanna. Í "Tvídægru" ræður ævintýrið líka ríkjum og er raunverulega fyndið á köflum (en það fer ekki alltaf saman, yfirlýsing Eggerts um að eitthvert kvæði hans sé gamankvæði og hvort það sé skemmtilegt í raun og veru, a.m.k. ekki fyrir nútímalesandann). Í kvæðinu ferðast sögumaður í leiðslu yfir í land Sukkudokka, undarlegrar þjóðar sem stundar þá hégómaiðju að veiða fiðrildi með hjákátlegum tilburðum. Sögð er saga þessarar þjóðar sem minnir mjög á sögu Íslendinga. Í ljós kemur að athæfi þeirra er einskonar bölvun sem guðir og vættir hafa lagt á þá fyrir að hafa vanbrúkað gáfur sínar og hagað sér óskynsamlega svo allt lenti í ófriði og sukki. Kvæðinu er því ætlað að vera dæmisaga fyrir Íslendinga að læra af og boðskapur þess er "hvöss" ádeila á slen og framkvæmdaleysi landa Eggerts. Kvæðið er leikrænt mjög, haugbúar og fornmenn stíga fram og "forlysta sig um fyrri landnám".

Á leikrænum nótum er einnig kvæðið um "Sótt og dauða íslenskunnar" og áhrif samtímabókmennta sjást þar líka, þótt með öðrum hætti sé. Í inngangi í því (í ehdr.) segir Eggert það vera "eina Tragedíu, það er sorglegt sjónarspil og satt uppdictað ævintýr um sótt og dauða móður vorrar hinnar afgömlu íslensku. Framsett í tveimur kvæðum af hverjum hvort um sig má vera einn actur og hver óða í kvæðinu ein sena". (Eggert Ólafsson ca. 1766:544). Kvæðið er því hugsað sem einskonar leikrit. Eggert kynntist slíkri skemmtan þegar hann kom til Kaupmannahafnar til náms 1746. Leikrit voru þá aftur orðin vinsæl dægradvöl eftir píetismann í valdatíð Kristjáns 6., og þá sérstaklega leikrit hins fyrrnefnda Ludvigs Holbergs. Leikrit voru í miklu uppáhaldi hjá mörgum upplýsingarmanninum því að með þeim mátti hafa sterk áhrif á öll skynfæri manna og sýna áhorfendum beinlínis dæmi til viðvörunar og eftirbreytni. Í "Sótt og dauða íslenskunnar" er íslensk tunga persónugerð í líki konu sem liggur á grafarbakkanum og sendir börn sín um allt land til að finna einhvern sem talar gott og hreint mál sér til bjargar. En enginn finnst sem talar almennilega íslensku eða gerir nokkuð gott með hana og móðirin deyr með harmkvælum í lokin. Kvæðið er gamankvæði, jafnvel gróteskt á köflum en kjarni þess er auðvitað gagnrýni á ástand íslenskrar tungu og það hefur því nytsaman boðskap fram að færa þrátt fyrir glaðhlakkalegt yfirbragð.

Eggert vildi að skáldskapur væri nytsamur og vel gerður. Oft hefur verið bent á að gagnstætt mörgum íslenskum upplýsingarmönnum þá hafi Eggert ekkert haft á móti rímum. Þetta er þó aðeins hálfur sannleikur því hann gerði skýran greinarmun á góðum og slæmum rímum. Þær eru góðar ef þær eru ortar úr af sönnum sögum sem hafa gagnlegt innihald, góðan boðskap og fróðleik, en vondar ef ort er út af lygisögum. Í Ferðabókinni segir Eggert að lestur rímna sé mikið stundaður í verstöðvum á vetrum og sum skáldin hafi það að atvinnu að yrkja rímur út af sögum: "Það sem verst er í því efni, er það, að rímnaskáld þessi taka sér jafnt hinar lélegustu lygisögur að yrkisefnum og hinar, sem sannar eru, enda eru þeir fáir, sem kunna að greina þar á milli". (Eggert Ólafsson 1981:204, I.) Og að sjálfsögðu er Eggert einn af þeim fáu sem getur greint á milli sannleika og lygi. Eitt af því sem dregur hina afgömlu íslensku móður vora endanlega til dauða er útgáfa ákveðinnar lygisögu hér á landi, eða eins og segir í kvæðinu: "með lygasögum landi þént, í lærdóms nafni sett á prent". Þarna er Eggert að vísa í það þegar út kom á Hólum 1756 sagan af Bárði Snæfellsás (útg. nefndist Nokkrir margfróðir söguþættir Íslendinga og Ágætar fornmannasögur). Eggerti verður mjög tíðrætt um þetta í Ferðabókinni. Hann kallar söguna "einskis virði", fullkomna skröksögu, sem eigi sér engar málsbætur. Persónan hafi aldrei verið til, tímatal allt á ruglingi og hún sé full af rangfærslum, hjátrú og hindurvitnum. Honum finnst það hreinlega hneyksli, að svona saga sé gefin út á Hólum og hefur sjálfsagt hryllt við þeim ókjörum rímna sem verstöðvarskáldin myndu yrkja upp úr henni.

Miðað við hvað þessi útgáfa fer í taugarnar á honum, þá er merkilegt að hann minnist ekki á hinar sögurnar sem voru gefnar út um leið og fornmannasögurnar, og hann sem áhugamaður um bókmenntir hlýtur að hafa vitað af. Það voru íslenskar þýðingar á vinsælum sögum um Gústaf Landkron og Berthold, stælingar á sögunni af Róbínson Krúsó eftir Daniel Defoe. Þetta voru ekki síður lygisögur en sagan af Bárði Snæfellsás. En skýringin er sú að lygarnar eru af öðru tagi, þær hafa annað yfirbragð og eru sagðar í ákveðnum tilgangi sem helgar meðalið: að sýna hvers maðurinn er megnugur ef hann notar skynsemi sína og gáfur í samræmi við reglur náttúrunnar. Sögur af þessu tagi höfðuðu til framfaratrúar upplýsingarmanna og trú þeirra á manninn. Sagan af Bárði Snæfellsáss hefur ekkert slíkt sér til málsbóta. Það er því ekki sama hvernig menn skreyta skáldskapinn. Eggert getur notað sér form ævintýrsins og beitt fyrir sig skopi og satíru en það er alltaf í markvissum tilgangi eins og sönnum upplýsingarmanni sæmir: að fræða og gagnrýna - en samt á þann hátt að lesandanum leiðist ekki.

Skyld trú Eggerts á áhrif skopsins til mannbætingar, er trú hans á að fleiri hollari skemmtanir muni gera Íslendingum gott. Hér á landi var þróunin í öfuga átt í þeim efnum, en með Húsagatilskipuninni 1746 var enn frekar reynt að bæla niður skemmtanaþrá landsmanna. Eggert segir að margir hafi skilið "foroðningu" Kristjáns 6. hvað varðaði brúðkaup og veisluhöld þannig að allar skemmtanir við brúðkaup ættu að leggjast niður. Sumir trúi þessu af "of mikille og miður grundaðri guðrækni eður Ótímabærri vandlætingu". En þetta hafi ekki verið tilgangur konungsins, hann hafi bara viljað útrýma sukki og svalli við veislurnar. Eggert skrifar rit sitt "Uppkast til nockra forsagna um Bruðlaups Siðu á Islande…" árið 1757 sem leiðbeiningar til fólks sem vill skemmta sér siðlátlega í veislum; með ritinu vill hann vekja upp gamla góða siði og færa inn nýja erlendis frá en þó þannig að allt "þefiast epter Smeck Íslendinga".

Eitt er það sérstaklega sem Eggert vill að Íslendingar taki upp og það eru "Lystelegar Comædiur eður Siónar Spil" eins og hann kynntist í Danmörku. Hann segir að hægt sé að sjá af dæmum annarra landa hvernig dofnar og þreyttar þjóðir hafi uppörvast og þorparalegt fólk hafi orðið siðlátt og kurteislegt vegna þess að það hafði þvílíkar skemmtanir fyrir augunum. Þetta megi bæði sjá í fornöld hjá Rómverjum og Grikkjum og hjá nýrri þjóðum. Þetta sé nú eitthvað fyrir Íslendinga sem (eins og segir í Brúðkaupssiðabókinni) "slenfuller og dofner erum orðner, af því vier höfum mist öll tækefære til örfandi Siðlátlegrar Skemtunar og eckert fáumm vier að siá, það er oss kann að vera til lærdóms eður aukningar Bæarlegum Selskap, svo þar er eingenn þióð í Veröldu (eg undantek Skrælingia og Villimenn hins nýa heims) jafnhrigg og dauf og þeigiande sem vier, hvorier eckert höfum að gamna oss með, annað enn hið nagande, brennande ólucku Vín…" (Eggert Ólafsson 1757:262). Eggert vill hefja Íslendinga upp á sama borgaralega planið og í Evrópu, gera þá fágaðri og fínni. Það vanti skynsemi, nytsemd og lærdóm í íslenskar skemmtanir og það vanti fleiri skemmtanir yfirleitt. Hann stingur m.a. upp á því að menn taki fyrir ýmis góð tilfelli úr Íslendingasögunum og leiki þau, menn geti lært margt gott af þeim dæmum, lært að forðast illt og þetta efli manndóminn. Þó að búningana vanti þá þurfi ekki svo mikil efni til, bara að dæmin séu góð og persónurnar séu æfðar og velhæfilegar. Hann varar þó við því að fyrirmenn leiki "niður fyrir sig", það kann ekki góðri lukku að stýra að þeir leiki húskarla eða eitthvað þannig, og "jafnann er Skemtanen því betre, sem Skickannlegra fólk er til leiksins tekeð" (Eggert Ólafsson 1757:264-7). Hann vill sem sagt flytja inn erlend fyrirbæri eins og leikrit/leiknar sögur, en laga að íslenskum aðstæðum og nota íslenskt efni. Ákaflega eggertísk afstaða.

Eggert finnur sárt til þess að Íslendingar hafi orðið útundan í þeirri eflingu lærdóms sem orðin var í Evrópu og á Norðurlöndunum, sakir fátæktar landsins og fjarlægðar og því sé hlegið að Íslendingum og þeir foraktaðir af öðrum þjóðum og hann vill leggja sitt af mörkum til að bæta úr því. Satíra og leikrit, uppbyggileg skemmtun eins og hún gerist best erlendis, er nokkuð sem hann leggur til af fullri alvöru, enda víst ekki vanþörf á að bæta geð landsmanna á þessum tíma. Hlátur, í réttum hlutföllum við alvöruna, er ein leið til að vekja menn af svefni vanans og hvetja þá til dáða.

Heimildaskrá

Eggert Ólafsson. 1757. "Uppkast til nockra forsagna um Bruðlaups Siðu a Islande, hellst nær hlut eiga Höfðingiar og Efnaðer Menn, þeir meira vilia viðhafa. Samanteked um Voret Anno 1757." Ehdr. JS. 138, 4to.

Eggert Ólafsson. Kvæði 1832. Tómas Sæmundsson, Eggert Jónsson og Skúli Thorarensen bjuggu til prentunar. Kaupmannahöfn.

Eggert Ólafsson. ca. 1766. "Nockur Ný Alþióðleg Íslendsk Kvæðe…" Ehdr. JS. 3, 4to.

Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferðir þeirra á Íslandi árin 1752-1757. Steindór Steindórsson frá Hlöðum þýddi. 4. útg. 1981. Reykjavík.