Staða rannsókna á máli 18. aldar

Höfundur:

Spurningunni um hvernig stöðu rannsókna á máli 18. aldar sé háttað er í rauninni fljótsvarað. Hún er heldur bág. Víða er 18. aldar máls og málfræði þó getið í einstökum greinum og bókum en það hefur ekki verið viðfangsefni neinnar einnar rannsóknar. (Sjá t.d. Kjartan G. Ottósson. 1992:204-207.) Íslensk málsaga hefur ekki verið skrifuð enn sem sérstakt verk þó að víða séu til drög að henni. Helst er að nefna grein Stefáns Karlssonar í Íslenskri þjóðmenningu VI. (Stefán Karlsson. 1989:1-54.) Margrét Jónsdóttir hefur skrifað yfirlitsgrein um ástundun íslenskrar málfræði, m.a. á 18. öld. (Margrét Jónsdóttir. 1996. 105 o.áfr.) (Sjá einnig skrá um rit um málfræði, Kristín Bjarnadóttir et al. 1988-1989.)

18. öldin er ekki tímabil mikilla viðburða í málsögunni. Hún stendur á milli breytingaskeiða. Margar helstu hljóðbreytingar eru um garð gengnar, þær sem urðu frá fornmáli til nútímamáls, og voru það þegar snemma á 17. öld. Þar er helst hljóðdvalarbreytingin svonefnda og nokkrar breytingar á beygingum. Jafnframt er staða orðaforðans nokkuð óbreytt frá 16. öldinni.

Þó má hér nefna hljóðbreytingar sem taldar eru eiga rætur að rekja til 18. aldarinnar og eru mikilsráðandi nú, linmælið og kv-framburðurinn. Uppruni linmælisins hefur ekki verið rannsakaður sérstaklega en tvö elstu dæmi þess eru frá miðri 18. öld, annað þó mjög ótraust. Frá því um 1800 eru allmörg dæmi í sunnlenskum bréfum (Björn Guðfinnsson. 1946:234nm, haft eftir Birni K. Þórólfssyni). Um kv-framburðinn hefur Gunnar Karlsson ritað (Gunnar Karlsson. 1965:20-37). Fornöfnin við og þið eru að hverfa sem tvítölumyndir á 18. öldinni og verða fleirtölumyndir í stað vér og þér (Helgi Guðmundsson. 1972:77). Sagnmyndir í 2. persónu eintölu eins og (þú) fer og (þú) les verða ferð og lest. Gamla sagnendingin í 1. pers. fleirtölu -umst (t.d. berjumst) er endurvakin á 18. öld (af Árna Magnússyni) eftir að hafa verið -unst eða -ust(um) á öldunum á undan. (Kjartan G. Ottósson 1987:315.) Notkun orðmynda eins og gamallrar og beinnri náðu hámarki á 18. öld, en þær hurfu síðan að mestu. (Kjartan G. Ottósson 1987:317.)

Efniviður til rannsókna á máli 18. aldar ætti að vera nægur. Ýmsir textar eru útgefnir, en þó misjafnlega vel. Kjartan G. Ottósson hefur gert úttekt á útgáfum á Ævisögu sr. Jóns Steingrímssonar, sem skrifuð var á tímabilinu 1778 eða 1779 til 1791. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að engin af þeim þrem útgáfum sem séð hafa dagsins ljós, 1913-16, 1945 og 1973, sé svo góð að viðhlítandi sé fyrir málfræðinga. (Kjartan G. Ottósson. 1986:175.)

En auðvitað er nægilegur efniviður í handritum sem málfræðingar geta sótt beint til ef þeir eru þá læsir á þau. Taka verður hér undir orð Jóns Helgasonar að prentuðum bókum skyldi maður aldrei treysta. Óhætt er þó talið að treysta þeim útgáfum sem hann annaðist á textum m.a. frá þessum tíma og þar er að finna ýmsar samantektir hans um málið, m.a. í Íslenskum ritum síðari alda, sem Hið íslenska fræðafélag í Kaupmannahöfn gaf út í 7 bindum frá 1848 til 1979.

Þær bækur sem prentaðar voru hér á landi fram til 1773 eru langflestar úr sömu prentsmiðju, Hólaprentsmiðju, og hefur málfari í þeim líklega oft verið breytt eitthvað frá handriti höfunda, bæði af forsvarsmönnum prentsmiðju og setjurum. Frumhandritin eru yfirleitt ekki lengur til til samanburðar. En þessu hefur nánast enginn gaumur verið gefinn í málrannsóknum. (Kjartan G. Ottósson. 1986:179nm; Kjartan G. Ottósson. 1988:137.)

Sá sem þetta skrifar gerði dálitla athugun á máli Jóns biskups Vídalíns (1666-1720) eins og það birtist í lítilli bók, "Stutt og einföld undirvísun um kristindóminn", sem kom út í Kaupmannahöfn 1729. Þetta var prófritgerð í Háskóla Íslands 1965, aðallega um stafsetningu og hljóðfræði ritsins, en hefur ekki verið birt. Helstu niðurstöður eru þær að samanburðurinn við Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar (sem Jón Helgason rannsakaði) og Guðbrandsbiblíu (sem Oskar Bandle rannsakaði) sýnir að meiri festa er á rithætti hjá Jóni Vídalín en hjá Oddi og Guðbrandi. Mörg atriði ritháttar eru á svipuðu stigi og hjá þeim. En það sem skilur að er t.d. að Jón ruglar algjörlega i og y, í og ý og ei og ey, þar sem aðeins var vísir að þessum ruglingi hjá Guðbrandi. Miðmyndarendingin -unst helst yfirleitt hjá Jóni þar sem -ust var oft hjá Guðbrandi. Viðskeytið -igur er varla til hjá Jóni, heldur er -ugur oftast hjá honum, og viðskeytið -ligur hjá Guðbrandi er orðið -legur hjá Jóni Vídalín.

Þessi athugun er sama annmarka háð og aðrar prentaðar bækur, að útgefandi eða prófarkalesari kann að hafa rjálað við texta höfundar. Í samanburð minn tók ég líka nokkur bréf Jóns óprentuð og sýndu þau óreglulegri rithátt en var á prentuðu bókinni. Vitað er að Jón Þorkelsson (Thorcillius) átti að lesa próförk að bókinni 1729, og ekki er ólíklegt að Jón Ólafsson úr Grunnavík hafi einnig komið nálægt útgáfunni.

Í nýrri útgáfu Vídalínspostillu (1718-1720) frá 1995 gerir Mörður Árnason grein fyrir fræðilegum vinnubrögðum við útgáfuna þar sem prentað er með nútímastafsetningu en orðmyndum og beygingum úr 1. útgáfu er haldið. "Í þessu felst meðal annars," segir Mörður, "að ekki er nokkur tilraun gerð til að 'lagfæra' málfar Vídalíns eftir þeim smekk sem nú er helstur uppi, heldur litið á venjur og tískur öndverðrar 18. aldar í málfari sem jafnórjúfanlegan hluta af verki meistarans og t.d. setningaskipan eða efnistök" (Mörður Árnason. 1995:ci). Ýmsar athugasemdir eru um stafsetningu og orðmyndir í þessari greinargerð svo og í skýringum í útgáfunni. En hins vegar má segja að vanti enn rannsókn á málinu á Vídalínspostillu, sem líklegt er að hafi haft meiri áhrif á málið almennt en biblían sjálf.

Hér verður ekki gerð grein fyrir stöðu rannsókna í handritafræðum eða fílólógíu 18. aldar, um rithátt og stafagerð, þar sem Árni Magnússon (1663-1730) er miðlæg persóna. Finnur Jónsson segir um Árna í ævisögu hans: "hann hlaut að verða málfræðingur að því er íslenskuna snerti. Að þessu leyti hefur hann og komist hærra en nokkur annar samtíðarmaður hans og þótt lengra og lángt sje farið niður í tímana. Á hans tímum voru menn yfir höfuð als ófróðir um málið á Íslandi að fornu og nýju; en hann tók bæði eftir hinum gömlu orðmyndum og skoðaði þær vísindalega rjett og hann tók líka eftir misjöfnum aldri þeirra; hann skildi og vel, að til voru mállýskuafbrigði." (Finnur Jónsson. 1930:137-138.) Árni fékkst m.a. við samanburðarmálfræði. Hann bar saman íslensk orð við latnesk og grísk (í AM 436,4to), og þó þar sé ýmislegt rangt, er það "furðan meiri, hvað mart er rjett". (Finnur Jónsson. 1930:141.) Þetta eru orð eins og armur - lat. armus, akr - lat. ager, auga - lat. oculus og af - gr. apo o.fl. Segja má að Árni hafi verið nærri því að gera sér grein fyrir þeim hljóðlögmálum sem Bopp, Rask og Grimm urðu síðan frægir fyrir snemma á 19. öldinni þegar samanburðarmálfræðin varð til. (Upphaf hennar er reyndar rakið til fyrirlestrar lögfræðingsins Sir William Jones í Kalkútta 1786.) Þessum athugunum Árna hefur þó ekki verið frekari gaumur gefinn.

Segja má að málfræði yfirleitt fái fyrst eitthvert vísindalegt mót á 18. öld, því að fram að því var þankagangur manna bundinn biblíuhugmyndum. Tilhneiging manna var allt of oft sú að sýna fram á yfirburði eigin tungumáls fram yfir önnur og það leiddi menn oft á villigötur í röksemdafærslu sem ekkert hafði með staðreyndir að gera.

Árni Magnússon skrifaði drög að málmyndalýsingu íslensku en sr. Jón Magnússon (1662-1738), bróðir Árna, skrifaði síðar Grammatica Islandica, heillegustu málfræði, sem samin hafði verið fram að því. Finnur Jónsson gaf hana fyrst út í heild sinni eftir hdr. AM 992, 4to. (Finnur Jónsson. 1933:11-14.) Jón Axel Harðarson gaf hana síðan út með inngangi, þýðingu og athugasemdum (Jón Magnússon. 1997).

Halldór Halldórsson prófessor notfærði sér m.a. málfræði Jóns Magnússonar í fyrirlestrum sínum um beygingafræði í Háskóla Íslands og einnig í greinum sínum. Hann segir að við allmikla notkun hennar hafi sér virst að í henni gæti meira bókmáls en ætla mætti við fyrstu sýn. (Halldór Halldórsson. 1963:70.)

Sá maður sem næst stóð Árna, Jón Ólafsson úr Grunnavík (1705-1779), skrifaði margt um mál sinnar tíðar, og hefur einna mest verið fjallað um hann af 18. aldar mönnum á því sviði. Jón Helgason prófessor skrifaði doktorsrit sitt um nafna sinn og kemur að málfræðistarfi hans hér og þar í bókinni. M.a. fjallar hann um aðalverk Jóns, íslensk-latnesku orðabókina miklu sem Jón hóf að semja 1734 og vann að drjúgan hluta starfsævi sinnar en hún kom aldrei út. Jón segir um hana að væri hún komin í boðlegt lag "myndi enginn hika við að kalla hana eitt helzta afrek í fræðimensku Íslendinga á 18. öld" (Jón Helgason. 1926:121). (Sjá einnig Jakob Benediktsson. 1994:19-22.)

Jón Helgason fjallar m.a. um söfn nafna síns Ólafssonar til íslenskrar mállýsingar í kaflanum um ritstörf 1736-7 eða þar í kring. (Jón Helgason. 1926:150-155.) Fóstbróðir Jóns, sr. Jón Sigurðsson, átti hlut að efnisöflun til mállýsingarinnar og Jón Magnússon, bróðir Árna, var með í ráðum. Þeir Jónarnir, Ólafsson og Magnússon, hittust á Íslandi og skrifuðust á um tilhögun málfræðinnar. Jón Helgason segir að málfræði Jóns Ólafssonar sé fjarri því að vera fullgert verk en hann hafi helst gert íslenskri mállýsingu greiða með því að örva Jón Magnússon til starfa. (Jón Helgason. 1926:154.)

Jón Ólafsson skrifaði á dönsku kennslukver í íslensku, um 1735, ætlað til þess að kenna erlendum mönnum málið. Umfjöllun um hljóðfræði er "mun meiri í þessu kveri en almennt tíðkaðist í málfræðiritum á þessum tímum sem helgast auðvitað af markmiðinu með því" (Þóra Björk Hjartardóttir. 1994:56).

Á árinu 1994 var stofnað hér í borg félag sem heitir Góðvinir Grunnavíkur-Jóns og hefur það "að markmiði að breyta þeirri mynd sem menn hafa af Jóni og standa vörð um fræðimannsheiður hans með því að kynna hann, æviferil hans og störf" eins og það er orðað í ráðstefnuriti sem félagið átti hlut að (Guðrún Kvaran. 1994:75). Í ritinu fjallar Veturliði Óskarsson um svokallaðan "contractismus" Jóns Ólafssonar, hugmynd sem hann fékk um uppruna orða upp úr miðjum 6. áratug aldarinnar. Hugmyndin var sú, að "flest orð hefðu í fyrndinni verið miklir langhundar, samsettir úr tveimur eða fleiri orðum eða orðhlutum, en síðar dregist harla mikið saman" (Veturliði Óskarsson. 1994:37). Dæmi þessa eru: grænn, samdráttur úr grasvænn, hrútur úr orðinu hornóttur, lúfa úr loðhúfa, köttur úr kömpóttur, sól úr suðurhjól o.s.frv. Veturliði segir að með nokkrum rétti megi kalla þetta fyrstu tilraun til íslenskrar orðsifjabókar, en skýringarnar flestar rangar og gildi ritsins því ekkert fyrir orðsifjafræði nema fyrir einskæra tilviljun (Veturliði Óskarsson. 1994:38). Veturliði segist þó ekki ganga í flokk með þeim sem hafa hneykslast á Jóni fyrir þessar etýmólógíur, þær séu í senn geysi-frumlegar og bráðfyndnar. Rit Jóns, Contractismus, er um 2000 bls. þéttskrifaðar, skrifað frá 1763 og áfram fram á síðustu ævidaga. Jón Helgason o.fl. hafa haldið því fram að verkið bæri vott um ellióra eða geðveiki höfundar. En Veturliði telur að það sem gefi verkinu mest gildi fyrir rannsóknir í málfræði sé þó allar þær samsetningar sem Jón telur liggja að baki orðunum. Flestar hafa aldrei verið til í málinu "en þær geyma í sér mikilvæga vitneskju um það hvernig 18. aldar maður gat hugsað sér að búa til samsett orð" (Veturliði Óskarsson. 1994:43).

Um orðaforðann í þýðingu Jóns á riti Holbergs, Nikulás Klím (1745), skrifaði Kristín Bjarnadóttir í Hræring, þar á meðal um orðasmíð hans. (Kristín Bjarnadóttir. 1994:23.)

Guðrún Kvaran hefur skrifað um nafnatöl ýmis sem Jón Grunnvíkingur tók saman, um mannanöfn, einnig stuttnefni, og örnefni. Nafnaskýringar hans bera sumar merki samdráttarkenningarinnar, t.d. Hálfdan, sem átti að vera dregið saman úr Hjörálfur dugandi. (Guðrún Kvaran. 1994a:35.)

Á 18. öldinni kom engin orðabók út um íslensku. Þó má nefna latnesk-íslenska orðabók Jóns Árnasonar biskups sem til er í tveimur handritum og er mjög merkileg heimild um orðaforða 18. aldar. (Jón Árnason. 1738 og 1994.) Í formála síðari útgáfunnar gerir Guðrún Kvaran grein fyrir máli og orðmyndun Jóns Árnasonar en í viðauka er íslensk orðaskrá, sem auðveldar mjög athuganir á orðaforða 18. aldar. Sjá einnig ýtarlegri grein hennar um sama efni (Guðrún Kvaran. 1996). Björn Halldórsson (1724-1794) vann einnig að íslensk-latneskri orðabók sinni á þessum tíma þó að hún kæmi ekki út fyrr en 1814. Birni voru mislagðar hendur í málfræði, t.d. áleit hann að orðið ær (kind) væri á í nefnifalli og beygðist eins og , svo að dæmi sé tekið. (Guðvarður Már Gunnlaugsson. 1993:243-244.)

Á sviði stafsetningar lagði Eggert Ólafsson (1726-1768) mest til málanna á 18. öldinni með Réttritabók sinni frá 1762, sem heitir í eiginhandarriti "Nokkrar óreglulegar reglur í spurningum framsettar, eftir stafrófi, um það, hvörn veg rétt eigi að skrifa, bókstafa og tala þá nú lifandi íslensku tungu." (Lbs. 2003, 4to.) Bókin hefur aldrei verið gefin út en hún barst um í afritum "og hafði veruleg áhrif á stafsetningu mikils hluta þeirra bóka sem voru prentaðar á íslensku næstu áratugina" (Stefán Karlsson. 1989:47). Þessar reglur höfðu mest áhrif á bækur úr Hrappseyjarprentsmiðju eftir 1773, sérstaklega fyrsta áratuginn en engin þeirra fylgdi reglunum út í æsar. Þá skrifaði Eggert styttri gerð af þessum reglum og nefndi "Stutt ágrip úr réttritabók Íslendinga" (JS 59, 8vo).

Árni Böðvarsson skrifaði um málfræðistörf Eggerts í Skírni (Árni Böðvarsson. 1951:156-172), en rækilegast hefur Bandaríkjamaðurinn Sidney R. Smith athugað stafsetningarrit Eggerts á síðari áratugum og var ætlunin um langa hríð að Árnastofnun og Málvísindastofnun gæfu Réttritabókina út ásamt Ágripinu með inngangi og athugasemdum en ekki hefur orðið af því enn.

Kjartan G. Ottósson skrifaði um réttritunarreglur Eggerts í bók sinni um íslenska málhreinsun og bendir á að sum fyrnska hjá Eggerti byggist á misskilningi, t.d. að taka upp sagnmyndir eins og ek hefir f. hefi, sem líklega sé til komið vegna norskra áhrifa á tímabilinu frá 14. til 16. aldar, einnig að taka upp v á undan o eins og í vorðinn. Sumar þessar tilraunir til fyrnsku telur Kjartan að hafi haft áhrif á höfunda eins og Eirík Laxdal og Jón Espólín. (Kjartan G. Ottósson. 1990:40-41.) Það verður að telja nauðsynlegt þegar textar 18. aldar eru rannsakaðir, að athuga hvort höfundar þeirra hafa verið undir áhrifum hreintungustefnu eða fyrnsku áður en ályktanir eru dregnar af málfari þeirra. (Kjartan G. Ottósson. 1988:142.)

Afstaða Eggerts til móðurmálsins er ljós, þegar hann segir, að nauðsynlegt sé að rita rétt, því að með eyðingu þess, "þá eyðist landsvaninn og gleymast ýms þarfleg störf, vinnulag og verkastjórn, ásamt því alþýðlega hvörsdagsæði feðra vorra, sem gott og siðlegt var, hvar eftir vér verðum ekki lengur Íslendingar, heldur önnur þjóð, eitthvað örverpi miklu lakara" (Ágrip:3).

Í kvæðinu "Um sótt og dauða íslenskunnar" persónugerir Eggert íslenskuna sem konu sem orðin er veik vegna of margra erlendra orða. Grunnavíkur-Jón orti síðan í framhaldi af því kvæði sem lofgjörð um kvæði Eggerts og eykur síðan við athugasemdum og tveim viðaukum. Annar er um "það íslenskunnar trufl og rammskælda böguskap, sem af dönskunni stendur". Gunnlaugur Ingólfsson hefur athugað þessa ritgerð Jóns um ástand íslenskunnar og gagnrýni hans á ýmsa þætti í máli samtímans, og birtist sú samantekt hans í áðurnefndum Hræringi. Gunnlaugur hefur m.a. skoðað tilgátur Jóns um hvaðan erlendu orðin í íslensku séu komin. (Gunnlaugur Ingólfsson. 1994:47-49.) Við Gunnlaugur höfum gengið frá útgáfu á þessari ritgerð Jóns. (Gunnlaugur Ingólfsson og Svavar Sigmundsson. 1997.) (Jón Ólafsson. 1997.)

Þó að málhreinsun hafi komið upp hér á landi fyrir 1600 með húmanismanum og hafi verið viðvarandi síðan, er ekki fyrir það að synja að sérstök áhrif erlendis frá geti verið að verki á 18. öldinni. Í Danmörku voru þrír menn, Eilschouw, Høysgaard og Sneedorff sem allir börðust fyrir hreinni dönsku fyrir miðja öldina og náðu miklum árangri. Jón Eiríksson (1728-1787) var líka einn þeirra sem vann að danskri málrækt á sínum tíma sem kennari í Sórey og er talinn hafa haft drjúg áhrif á danskt ritmál.

Það er ljóst að með upplýsingunni, útgáfum á veraldlegum ritum og stofnun Lærdómslistafélagsins 1779 og útgáfum þess, er farið að skrifa um efni sem áður hafði lítt eða ekki verið skrifað um á íslensku. Þörfin fyrir ný orð í málinu jókst, og nýyrðasmíð var stefnumál félagsins. Stofnun félagsins er vafalítið íslenskt svar við akademíum og málverndarfélögum úti í Evrópu, á Ítalíu, Þýskalandi og Frakklandi, sem stofnuð voru til þess að efla þjóðtungurnar gegn ofurveldi latínunnar.

Halldór Hermannsson bókavörður skrifaði á sínum tíma nokkuð um málið á Lærdómslistafélagsritunum í bók sinni um nútímaíslensku. (Halldór Hermannsson 1919:23-25.)

Björn Jónsson fyrrv. skólastjóri skrifaði kandídatsritgerð sína í íslenskum fræðum 1959 um nýyrði í ritinu "Undirvísun í náttúruhistoríunni" eftir Busching, sem birtist í nokkrum árgöngum Lærdómslistafélagsritanna. Ritgerð Björns er óprentuð en Halldór Halldórsson gerði grein fyrir atriðum úr henni í greininni Nýgervingar frá síðari öldum. (Halldór Halldórsson. 1964:140.)

Ein nýjasta umfjöllunin um mál 18. aldar er í stílfræði þeirra Þorleifs Haukssonar og Þóris Óskarssonar frá 1994. Þeir vitna til Jóns Helgasonar um það að íslenskt ritmál á s.hl. 18. aldar hafi ekki í annan tíma orðið sundurleitara, þar sem að einu leyti var skrifað dönskuskotnara mál en annars hafði þekkst, að öðru leyti líkt eftir gömlum og úreltum rithætti innlendra bóka og að þriðja leyti skrifað eftir evrópskri fyrirmynd samtímans. (Jón Helgason. 1931:42.) Þorleifur og Þórir telja að málfyrningu aldarinnar verði að skoða sem þjóðlegt andóf gegn erlendum áhrifum þó að sumu leyti sé fyrirmyndin nýklassismi í Evrópu. (Þorleifur Hauksson og Þórir Óskarsson. 1994:348.)

Guðrún Kvaran hefur kannað biblíuþýðingu Steins biskups Jónssonar (1728-1734) og borið hana saman við Þorláksbiblíu (1637-1644) og dönsku biblíuna frá 1647. (Guðrún Kvaran. 1994b.)

Nokkrar málfræðilegar athuganir hafa stúdentar í íslensku við Háskóla Íslands gert á textum 18. aldar manna sem námsverkefni. Nefna má ritgerð Ástu Svavarsdóttur, um Ferðasögu Árna Magnússonar frá Geitastekk (1753-1797) í námskeiði í sögulegri setningafræði 1981. (Í eigu Málvísindastofnunar.)

Ólöf Margrét Snorradóttir skrifaði B.A.-ritgerð í almennum málvísindum vorið 1997, Myndun gerand- og verknaðarnafna á 18. öld. (Í eigu Málvísindastofnunar.) Heimildir hennar eru latnesk-íslensk orðabók Jóns Árnasonar biskups, Nucleus Latinitatis (1738), orðabókarhandrit Jóns Grunnvíkings og þýðing hans á Nikulási Klím.

Að lokum mætti nefna að ýmis verkefni bíða úrlausnar í rannsóknum á máli 18. aldar. Má í því sambandi nefna að aðstaða öll til málrannsókna hefur gjörbreyst við tilkomu tölvutækni, hvort sem er til athugana á orðaforða, orðmyndun, beygingafræði, setningafræði eða stílfræði. Kristín Bjarnadóttir hefur t.d. notfært sér það við athugun á orðaforðanum í Nikulási Klím, og auðvelt ætti að vera að gera ýmsa orðstöðulykla um rit frá 18. öld, t.d. um Vídalínspostillu sem þegar er til í tölvutæku formi.

Prentaðar heimildir

Árni Böðvarsson. 1951. Þáttur um málfræðistörf Eggerts Ólafssonar. Skírnir 125.

Björn Guðfinnsson. 1946. Mállýzkur I. Ísafoldarprentsmiðja h.f., Reykjavík.

Björn Karel Þórólfsson. 1925. Um íslenskar orðmyndir á 14. og 15. öld og breytingar þeirra úr fornmálinu. Með viðauka um nýjungar í orðmyndum á 16. öld og síðar. Fjelagsprentsmiðjan, Reykjavík.

Finnur Jónsson. 1930. Ævisaga Árna Magnússonar. Safn Fræðafjelagsins VIII. Kaupmannahöfn.

Finnur Jónsson. 1933. Den islandske grammatiks historie til o. 1800. Levin & Munksgaard, København.

Guðrún Kvaran. 1994a. Nafnatöl Jóns Ólafssonar úr Grunnavík. - Þingslit. Sjá Hræring úr ritum Grunnavíkur-Jóns.

Guðrún Kvaran. 1994b. Nokkur orð um málið á Steinsbiblíu. Biblían og bókmenntirnar. Rit helgað minningu séra Jakobs Jónssonar dr. theol. Ritnefnd: Gunnlaugur A. Jónsson (ritstjóri), Einar Sigurbjörnsson og Pétur Pétursson. Ritröð Guðfræðistofnunar. Studia theologica islandica 9. Guðfræðistofnun - Skálholtsútgáfan, Reykjavík.

Guðrún Kvaran. 1996. Ein Wörterbuch als Sprachgeschichtliche Quelle. Berkovsbók. To honour of professor Valery Berkov. Editors: Lilya Popova, Yuri Kuzmenko. Impeto Publishers, Moscow.

Guðvarður Már Gunnlaugsson. 1993. Björn Halldórsson. Orðabók. Íslensk-latnesk-dönsk. Orðabók Háskólans 1992, Reykjavík. [Ritdómur.] Íslenskt mál og almenn málfræði 15.

Gunnar Karlsson. 1965. Um aldur og uppruna kv-framburðar. Lingua Islandica - Íslenzk tunga 6.

Gunnlaugur Ingólfsson. 1994. Um sótt og dauða íslenskunnar. Sjá Hræring úr ritum Grunnavíkur-Jóns.

Gunnlaugur Ingólfsson og Svavar Sigmundsson. 1997. Animadversiones aliquot - Hugleiðingar um sótt og dauða íslenskunnar eftir Jón Ólafsson Grunnvíking. Gripla X. Í prentun.

Halldór Halldórsson. 1963. Sitthvað um orðið kvistur. Lingua Islandica - Íslenzk tunga 4.

Halldór Halldórsson. 1964. Nýgervingar frá síðari öldum. Þættir um íslenzkt mál eftir nokkra íslenzka málfræðinga. Ritstjórn annaðist Halldór Halldórsson. Almenna bókafélagið, Reykjavík. Endurpr. Halldór Halldórsson. 1971. Íslenzk málrækt. Erindi og ritgerðir. Baldur Jónsson sá um útgáfuna. Hlaðbúð hf, Reykjavík.

Halldór Hermannsson. 1919. Modern Icelandic. An essay. Islandica XII. Cornell University Library, Ithaca, New York.

Helgi Guðmundsson. 1972. The Pronominal Dual in Icelandic. University of Iceland Publications in Linguistics 2. Edited by Hreinn Benediktsson. Institute of Nordic Linguistics, Reykjavík.

Hræringur úr ritum Grunnavíkur-Jóns. 1994. Erindi flutt á málþingi um Jón Ólafsson úr Grunnavík laugardaginn 16. apríl 1994. Orðmennt og Góðvinir Grunnavíkur-Jóns, Reykjavík.

Jakob Benediktsson. 1994. Glíman við orðabók Jóns Ólafssonar. Sjá Hræring úr ritum Grunnavíkur-Jóns.

Jón Árnason. 1738. Nucleus Latinitatis. Hafniæ. - Ný útgáfa 1994. Orðfræðirit fyrri alda III. Guðrún Kvaran og Friðrik Magnússon sáu um útgáfuna. Orðabók Háskólans, Reykjavík.

Jón Helgason. 1926. Jón Ólafsson frá Grunnavík. Safn Fræðafjelagsins V, Kaupmannahöfn.

Jón Helgason. 1931. Från Oddur Gottskálksson till Fjölnir. Tre hundra års isländsk språkutveckling. Island. Bilder från gammal och ny tid. Skrifter utgivna av Samfundet Sverige-Island 1. Uppsala.

Jón Magnússon. 1997. Grammatica Islandica. Íslenzk málfræði. Jón Axel Harðarson gaf út með inngangi, þýðingu og athugasemdum. Málvísindastofnun Háskóla Íslands - Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Jón Ólafsson. 1997. Animadversiones aliqvot, & paulo fusior præsentis materiæ explanatio. Gripla X. Í prentun.

Kjartan G. Ottósson. 1986. Jón Steingrímsson prófastur og íslensk málsaga. Íslenskt mál og almenn málfræði 8.

Kjartan G. Ottósson. 1987. An archaising aspect of Icelandic purism: the revival of extinct morphological patterns. Pirkko Lilius & Mirja Saari (eds.). The Nordic Languages and Modern Linguistics 6. Proceedings of the Sixth International Conference of Nordic and General Linguistics in Helsinki, August 18-22, 1986. Helsinki.

Kjartan G. Ottósson. 1988. Den isländska språkhistoriens primärkällor och deras användning. Nordistiken som vetenskap. Artiklar om ämnets historia, teorier och metoder. Jan Svensson (red). Studentlitteratur, Lund.

Kjartan G. Ottósson. 1990. Íslensk málhreinsun. Sögulegt yfirlit. Rit Íslenskrar málnefndar 6. Reykjavík.

Kjartan G. Ottósson. 1992. The Icelandic middle voice. The morphological and phonological development. Department of Scandinavian Languages, Lund University, Lund.

Kristín Bjarnadóttir. 1994. Um orðaforðann í þýðingu Jóns Ólafssonar úr Grunnavík á Nikulási Klím. Sjá Hræring úr ritum Grunnavíkur-Jóns.

Kristín Bjarnadóttir, Aðalsteinn Eyþórsson og Þorsteinn G. Indriðason. 1988-1989. Skrá um íslensk málfræðirit til 1925: Mart finna hundar sjer í holum. Íslenskt mál og almenn málfræði 10-11.

Margrét Jónsdóttir. 1996. Linguistics in Iceland before 1800. An overview. Studies in the development of linguistics in Denmark, Finland, Iceland, Norway and Sweden. Papers from the Conference on the history of linguistics in the Nordic countries, Oslo, November 20-22, 1994. Edited by Carol Henriksen, Even Hovdhaugen, Fred Karlsson and Bengt Sigurd. Novus forlag, Oslo.

Mörður Árnason. 1995. Um þessa útgáfu. Jón Þorkelsson Vídalín. Vídalínspostilla. Gunnar Kristjánsson og Mörður Árnason sáu um útgáfuna. Mál og menning og Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.

Stefán Karlsson. 1989. Tungan. Íslensk þjóðmenning VI. Munnmenntir og bókmenning. Ritstjóri Frosti F. Jóhannsson. Bókaútgáfan Þjóðsaga, Reykjavík.

Veturliði Óskarsson. 1994. Contractismus Jóns Ólafssonar úr Grunnavík. Sjá Hræring úr ritum Grunnavíkur-Jóns.

Þorleifur Hauksson (ritstjóri) og Þórir Óskarsson. 1994. Íslensk stílfræði. Styrktarsjóður Þórbergs Þórðarsonar og Margrétar Jónsdóttur, Háskóla Íslands, og Mál og menning, Reykjavík.

Þóra Björk Hjartardóttir. 1994. Kennslukver í íslensku. Sjá Hræring úr ritum Grunnavíkur-Jóns.