Staða rannsókna á sviði 18. aldar fræða: Sagnfræði

Höfundur:

Viðhorf íslenskra sagnaritara til sögu 18. aldarinnar hafa löngum verið nokkuð blendin. Togast þar á sú staðreynd að öldin var landsmönnum að mörgu leyti afskaplega andhæf í efnahagslegu tilliti og sú skoðun síðari tíma manna að 18. öldin hafi markað upphaf nútímans í andlegum efnum Íslendinga. Um þetta segir Jóhannes Nordal fyrrverandi seðlabankastjóri svo í formála að endurútgáfu Mannfækkunar af hallærum eftir Hannes biskup Finnsson:

Íslendingar hafa lengi litið aftur til 18. aldarinnar sem hins mesta niðurlægingar-skeiðs í sögu sinni. Leikur lítill vafi á, að þetta á við full rök að styðjast, ef litið er til efnahags þjóðarinnar og líkamlegrar velferðar. Sú veraldlega hnignun, er hófst hér á landi á 16. öld, setti svip sinn á 18. öldina allt til loka.

Þetta ástand rekur Jóhannes til erfiðrar náttúru og erlendrar kúgunar sem lögðust á eitt við að hrella Íslendinga; í annan stað hnignaði búskapargæðum landsmanna verulega vegna kólnandi veðurfars og ísa, og í hinn meinaði erlend einokun Íslendingum að njóta hagkvæmni eðlilegrar verkaskiptingar við aðrar þjóðir í formi aukins útflutnings sjávarafurða. En þrátt fyrir andstreymi 18. aldar, heldur Jóhannes áfram, brotnaði þjóðin

ekki undir þessu fargi, heldur reis til viðnáms og til undirbúnings þeirrar sóknar, er átti eftir að leiða hana út úr ógöngum, þótt síðar yrði. Og þrátt fyrir kröpp kjör fóstraði Ísland á fyrri helmingi aldarinnar hóp óvenjulegra gáfu- og mannkostamanna, Jón Eiríksson, Skúla Magnússon, Eggert Ólafsson, Bjarna Pálsson, Björn Halldórsson, Ólaf Stefánsson og Hannes Finnson.(2)

Hér ætla ég mér að beina sjónum fyrst og fremst að þeim tveimur sviðum sem Jóhannes nefnir í sögu 18. aldarinnar, enda hafa þau skorið sig úr í umfjöllun sagnfræðinga á undanförnum þremur áratugum eða svo. Annars vegar er um að ræða sögu íslensks hagkerfis og stjórnskipunar á 18. öld og hins vegar sögu hugmynda og hugarfars eða viðhorfa. Þrátt fyrir þessa afmörkun efnisins ætla ég mér ekki þá dul að ég geti gert þessu efni tæmandi skil; til þess er efnið of vítt.

Þótt skil á milli sagnfræði og skáldskapar séu ekki algerlega klippt og skorin hljóta sagnfræðingar ávallt að vera bundnir a.m.k. í annan skóinn í starfi sínu af þeim heimildum sem þeir hafa úr að moða. Okkur þarf því ekki að undra þau skörpu skil sem verða í þekkingu okkar á hagsögu á ofanverðri 17. öld sökum þess að þá varð bylting í opinberri gagnaöflun á Íslandi. Hér er auðvitað ekki um tilviljun að ræða, því að í þessu tilliti njóta sagnfræðingar nútímans tilrauna Danakonungs við að koma á miðstýrðu stjórnkerfi í hinu víðfeðma ríki sínu á grunni einveldishugmynda 17. aldar. Hvað Ísland varðar hófst starfið með víðtækri söfnun upplýsinga um ástand hjálendunnar í norðri á síðustu tveimur áratugum 17. aldar, en náði hámarki með rannsóknum jarðabókarnefndar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns á árunum 1702-1712.(3) Ferðalög þeirra síðastnefndu skilaði Íslendingum stórvirkjum á borð við manntalið 1703, jarðabókina, og á óbeinan hátt kannski Íslandsklukku Halldórs Laxness. Það segir reyndar nokkuð um ástand Íslands á þessum árum að áhugi konungs á rannsóknum á högum landsmanna virðist hafa dvínað mjög eftir að niðurstöður þeirra kumpánanna Árna og Páls bárust til Kaupmannahafnar, a.m.k. eru engar sambærilegar heimildir til um mannfjölda og búnaðarhætti á Íslandi fyrr en líða tekur að lokum 18. aldar.(4)

Jarðabóka- og manntalsgerð þeirra Árna og Páls hefur verið mönnum lengi kunn. Skúli Magnússon notaði t.d. manntalið við skrif sín um íslensk samfélagsmál á síðari hluta 18. aldar og Hannes Finnsson þekkti a.m.k. niðurstöður þess. Segja má þó að visst blað hafi verið brotið í notkun jarðabókaheimilda frá upphafsskeiði einveldistímans með doktorsritgerð Björns Lárussonar hagsögufræðings í Lundi, The Old Icelandic Land Registers, sem út kom árið 1967. Að stofni til er ritgerðin útgáfa jarðabóka sem gerðar voru á árunum 1686-1697, en helsta nýjungin í rannsóknum Björns voru tvímælalaust útreikningar hans á skiptingu jarðeigna á Íslandi við lok 17. aldar. Þar sýndi Björn ótvírætt fram á að nær allar jarðir á Íslandi voru í leigu nálægt aldamótunum 1700 (um 96% heimila nýttu ekki eigið eignarland) og að eignarhaldi jarða í einkaeigu var mjög misskipt - um 7% landeigenda áttu um 45% jarðeigna í einkaeigu.(5) Niðurstaða hans um þetta efni var sú að stóreignafólkið hafi flest verið skylt innbyrðis og með inngiftingum hafi því tekist að halda eignum sínum innan örfárra ætta þrátt fyrir að eignir hefðu tilhneigingu til að dreifast vegna erfðareglna.

Rannsóknir Björns voru að vissu leyti upphaf endurskoðunar sagnfræðinga á samfélagi einveldistímans á Íslandi. Sú samfélagsgerð sem birtist í jarðabókunum féll þannig betur að söguskilningi sjöunda áratugarins en hugmyndum sjálfstæðisbaráttunnar um sameiginlega hagsmuni allra Íslendinga og sameiginlega baráttu þeirra fyrir þjóðfrelsi. Landeigendur 18. aldar mynduðu nú sérstaka stétt í anda marxískrar efnishyggju, sem átti tilveru sína og völd undir eignarhaldi á "framleiðslutækjum" samfélagsins, þ.e.a.s. svo fremi sem jörð getur talist tæki. Reyndar gerir Björn ekki mikið úr þessu atriði í ritum sínum, af því að hann lagði höfuðáherslu á heimildirnar sjálfar og vandamál þeim tengd, en rannsóknir hans höfðu samt óhjákvæmilega mikil áhrif á viðhorf sagnfræðinga til samfélags og valdagerðar 18. aldar. Þannig varð sú kenning ráðandi meðal sagnfræðinga að stétt eins konar landeigendaaðals hafi stjórnað landinu á 18. öld í krafti auðæfa sinna. Sá sem haldið hefur þessu hvað eindregnast fram er sennilega sænski sagnfræðingurinn Harald Gustafsson, sem kannað hefur stjórnkerfi einveldistímans á Íslandi af hvað mestum lærdómi. Í doktorsritgerð sinni Mellan kung och allmoge hafnar hann t.d. skoðun manna eins og Þorvalds Thoroddsens um að þjóðin hafi öll verið á sama báti á 18. öld, niðurbrotin í fátækt undir áþján danskrar einokunar.(6) Þess í stað kynnir hann til sögunnar sameinaða valdastétt, "den isländska eliten" eins og hann nefnir hana,(7) sem réði bæði yfir eignum og helstu valdastofnunum samfélagsins. Í krafti stöðu sinnar stjórnaði valdastéttin miðlun upplýsinga á milli ríkismiðjunnar og Íslands, og gat á þann hátt ráðið lagasetningu og aðgerðum ríkisins hvað Ísland varðaði.

Þessi tenging auðs og valda hefur valdið sagnfræðingum nokkrum heilabrotum á undanförnum árum, enda er tæplega fullskýrt hvernig hin íslenska landeigendastétt gat tryggt sér aðgang að embættum eftir að einveldi var orðið fast í sessi og konungsvaldið varð virkara í stjórn landsins. Bragi Guðmundsson hefur t.d. dregið nokkuð í efa hina marxískt ættuðu stéttgreiningu á bændasamfélagi 18. aldar í riti sínu Efnamenn og eignir þeirra um 1700, en þar gerir hann allítarlega grein fyrir íslenskum gósseigendaættum eins og þær birtast í Jarðabók Árna og Páls. Lokaniðurstaða hans getur tæpast talist mjög eindregin, en um samband auðs og valda á 18. öld segir hann að "auði [hafi] verið mjög misskipt með embættismönnum á Íslandi um 1700 og það eina sem sameinaði þá voru sams konar störf. En sem heildstæð embættismanna- og jarðeigendastétt voru þeir ekki til. Auður og embætti gátu farið saman og gerðu það oft en ekki nándar nærri því alltaf."(8) Rannsókn Braga er of takmörkuð í tíma til að gefa fullnægjandi svar um efnið, en hún er allrar athygli verð og kallar á dýpri greiningu á valdagerð 18. aldar.

Í doktorsritgerð sinni frá 1983 vottar Gísli Gunnarsson landeigendakenningunni virðingu sína, en hann telur þar að á Íslandi hafi verið "tiltölulega samstæð yfirstétt [á 18. öld] sem efnalega hafði bæði stuðning af einkajörðum sínum og lénsjörðum kóngs og kirkju (og skipaði að sjálfsögðu helstu embætti kóngs og kirkju)."(9) Þessi yfirstétt gægist fram öðru hvoru í texta Gísla, en í raun gerir hann ekki mikið úr þætti hennar í íslenskri samfélagsþróun. Athyglisverðasta nýjung Gísla í umræðunni um samfélagsgerð fyrri tíma er einmitt sú kenning hans að bændasamfélagið hafi verið íhaldssamt og áhættufælið í eðli sínu og andstaða við breytingar á atvinnuháttum hafi ekki einungis mótast af hagsmunum yfirstéttarinnar, þótt oftast hafi látið hæst í henni. Þannig kemst hann að því að einokunarverslunin hafi verið að sönnu bölvuð, en hún hafi ekki verið sök Dana einna heldur hafi hugmyndafræði hennar fallið ágætlega að samfélagshugsun "gamla samfélagsins", þar sem allt átti að vera í föstum skorðum og sjávarútvegur og samkeppni voru litin hornauga. Segja má því, þó að slíkt sé óneitanlega mjög mikil einföldun á viðamikilli greiningu Gísla á sögu einokunarverslunarinnar, að hann hafi tekið til endurskoðunar þær hagsmunaandstæður sem oftast hafa verið taldar ráðandi í samfélagi 18. aldar. Gildir það bæði um hinar viðteknu andstæður á milli Íslendinga og Dana og hinar nýju stéttaandstæður landeigenda og leiguliða. Þessar kenningar vöktu mikla athygli á sínum tíma(10) og hafa haft víðtæk áhrif á ritun félags- og hagsögu 18. og 19. aldar. Um þær hefur reyndar staðið styr, en ég sakna þess að fátt nýtt hefur komið fram um stjórn- og efnahagskerfi 18. aldarinnar síðan þýdd og endurskoðuð bók Gísla kom út árið 1987.

Í heild má segja að margar og mikilvægar nýjungar hafi komið fram í rannsóknum á samfélags- og valdagerð 18. aldar á árunum frá um 1970 og fram á síðasta áratug, enda voru félags- og hagsaga í miklu afhaldi meðal sagnfræðinga á þeim tíma. Sameiginlegt einkenni þessara rannsókna er að þær hafna söguskilningi sjálfstæðisbaráttunnar þar sem litið var á fortíðina sem eilífa baráttu Íslendinga við útlent vald.(11) Þess í stað hafa sagnfræðingar eins og Harald Gustafsson og Gísli Gunnarsson bent á að samfélagsþróun á Íslandi átti sér margar hliðstæður við það sem gerðist í nágrannalöndunum, og að andstæðan Ísland-útlönd hafði allt aðra merkingu á 18. öld en hún fékk í rómantík 19. aldarinnar. Síðan doktorsritgerðir þeirra komu út nálægt miðjum síðasta áratug hefur þó verið heldur hljótt á þessum vígstöðvum sagnfræðinnar, hvort sem þar er um að kenna dvínandi áhuga á félags- og hagsögu á síðustu árum eða fámenni í íslenskri sagnfræðingastétt.

Hinn þáttur rannsóknarsögu 18. aldar sem verið hefur hvað mest áberandi innan sagnfræðinnar á undanförnum árum er hugmynda- og menntunarsaga 18. aldar. Að mörgu leyti er þessi áhugi sjálfgefinn, vegna þess að 18. öldin var mjög frjór tími í útgáfu lærdómsrita sem aftur ber vott um geysilega áhugaverða gerjun í andlegu lífi Íslendinga á upphafsárum "nútímans". Fremstir í flokki sagnfræðinga á þessu sviði standa, að öðrum ólöstuðum, prófessorarnir Ingi Sigurðsson og Loftur Guttormsson, en þótt þær rannsóknarhefðir sem þeir tengjast séu mjög ólíkar myndar hugtakið "upplýsing" kjarnann í rannsóknum þeirra beggja á sögu 18. aldarinnar. Með rannsóknum þeirra hefur framfaraviðleitni og framfaratrú 18. aldar verið sett í nýtt samhengi - nú verður nýbreytni sem varð í verklegri og andlegri menningu þjóðarinnar á 18. öld tæpast skýrð með þeirri tilviljun að þá hafi fæðst hópur óvenjulegra gáfu- og mannkostamanna sem hóf baráttu fyrir bættum hag hnípinnar þjóðar, heldur tengist íslensk upplýsing náið alþjóðlegum hugmyndastraumum.

Með þessu er ekki sagt að sagnfræðingar hafi fyrst uppgötvað áhrif upplýsingarstefnunnar á íslenskt samfélag nú á síðustu árum. Í þeim kafla sjöunda bindis Sögu Íslendinga sem fjallar um sögu menningar og mennta á tímabilnu 1770-1830 bendir Þorkell Jóhannesson t.d. á breytt viðhorf til alþýðufræðslu á síðari hluta 18. aldar, sem hann rekur til hinnar evrópsku upplýsingar, og svipaða sögu má reyndar segja um Jón Aðils í fyrirlestrum hans um íslenskt þjóðerni.(12) Í ritum þessara manna birtist upplýsingin þó sem heldur loftkennt fyrirbæri, eða eins konar halastjarna sem siglir í gegnum kristalhvolf gamallar hjátrúar og hindurvitna; hún verður eins konar óljóst samheiti fyrir allt sem var nýtt - ný viðhorf til alþýðu, frelsis og framfara. Að vissu leyti á þetta sér þá skýringu að afmörkun upplýsingarstefnunnar hefur oft verið óljós. Því eru ótalmargar vistarverur í húsum hennar, sem rúma spekinga sem eiga fátt annað sameiginlegt en að hafa verið uppi á svipuðum tíma. Hvað Ísland varðar flækist málið enn frekar við þá staðreynd að í mikilvægum málaflokkum tengist upplýsingin hugmyndum sem eru eldri en hin "eiginlega" upplýsing, en blandast við hana er líður á 18. öldina. Þannig á kameralisminn, sem var leiðarstjarna í hag- og stjórnspeki danska einveldisins lengst af á 18. öld, rætur í merkantílisma 17. aldar frekar en upplýsingu, og uppeldishugmyndir íslenskra upplýsingarmanna byggðust ávallt að nokkru leyti á píetismanum, sem tæpast getur talist "upplýstur", a.m.k. ekki ef miða á við hina frönsku upplýsingu.

Þessi sérstaða íslenskrar (og þar með að nokkru leyti danskrar) upplýsingar skýrist annars vegar af því að hún tengist miklu fremur þýskri hreinsun þokuanda, Aufklärung, en hinu franska ljósi, les lumières. Þýska upplýsingin var almennt mun varkárari í gagnrýni sinni á konungsvaldið en sú franska, um leið og norður-þýsk upplýsing, sem hafði mikil áhrif í Danmörku, lifði í náinni sambúð við lúterstrúna.(13) Hins vegar skorti algerlega á Íslandi þann jarðveg sem upplýsingin óx í á meginlandi Evrópu. Hér var ekkert þéttbýli sem heitið gat og engin innlend borgarastétt. Íslendingar áttu ekki einu sinni yfir höfði sér aðalsstétt sem gat viðhaldið sjálfstæðu og framsæknu menningarlífi á borð við salónana frönsku eða tónlistarlíf á þýsk-austurríska menningarsvæðinu.

Með þessu er ekki sagt að upplýsingin hafi í raun haft lítil áhrif á Íslandi, heldur aðeins að áhrif hennar hafi ávallt verið tempruð af hefðinni. Íslenskir upplýsingarmenn, sem flestir voru embættismenn eða menntamenn á leið í embættismannastétt, leituðust mjög við að samræma skoðanir sínar hefðbundnu gildismati og samfélagshugsun og lítið ber á gagnrýni meðal þeirra á skipulag bændasamfélagsins íslenska eða stjórnarfar konungsvaldins í hjálendunni. Sem dæmi má nefna að um leið og menn eins og Magnús Stephensen og Baldvin Einarsson vildu efla upplýsingu á Íslandi og útrýma "hindurvitni" í viðhorfum til náttúrunnar eða harðneskju í refsingum og uppeldi, taldi hvorugur nauðsynlegt að breyta undirstöðum bændasamfélagsins íslenska. Báðir voru þeir einlægir trúmenn og hvorugur þeirra hafði mikla trú á eflingu þéttbýlis á Íslandi. Báðir vildu þeir efla nýjar atvinnugreinar á Íslandi, en um leið höfðu þeir hina mestu skömm á siðspillandi áhrifum lausamennsku og þurrabúðarlífs.(14) Arfleifð upplýsingarinnar er því heldur mótsagnakennd. Greinilegt er að hugmyndir búauðgismanna um frjálsa verslun grófu undan trausti stjórnvalda á verslunareinokun og tilraunir til iðnaðarstarfsemi á vegum Innréttinganna í Reykjavík má eflaust rekja að einhverju leyti til framfaratrúar upplýsingar. Eins má greina breytt viðhorf til verklegra framkvæmda í tilskipunum um jarðrækt frá 1776, en sennilega segir dómur Þjóðólfs í Ármanni á Alþingi um væntanlegan boðskap Ármanns í Ármannsfelli nokkuð um árangurinn:

Eg spái því, að þegar hann nú kemur, ef það annars verður nokkuð af því, þá setji hann upp langa hrókaræðu um kálgrauta, um túngarðahleðslu og þúfnasléttun og annað þvílíkt, sem enginn lifandi maður hefir gagn af, því enginn étur kálgrautinn hans, og túngarða hleður enginn maður með vitinu, því þeir hrynja jafnóðum ofan í höndurnar á manni aftur.(15)

Upplýsingin hlýtur þó ávallt að verða miðlægt fyrirbæri í rannsóknum á sögu 18. aldar. Hún er kjörin í þessu tilliti vegna þess að hún sameinar margar og ólíkar fræðigreinar, sem sést kannski hvað best á ritgerðasafninu Upplýsingin á Íslandi sem kom út í ritstjórn Inga Sigurðssonar fyrir nokkrum árum. Þar leiddu saman hesta sína sérfræðingar úr nokkrum geirum vísindanna og mátu áhrif upplýsingarinnar á sínum sérsviðum. Upplýsingin er líka kjörinn vettvangur til samanburðar við önnur lönd, vegna þess að hún hafði veruleg áhrif um öll okkar nágrannalönd, bæði í austri og vestri. Ég vil þó vekja athygli á að hugmyndasaga 18. aldar nær óneitanlega yfir víðara svið en upplýsinguna eina og enn vantar sárlega nýjar rannsóknir í sagnfræði á aðdraganda hennar. Í því sambandi má benda á ritgerð Jóns Ólafssonar úr Grunnavík, Hagþenki, frá árinu 1737, en þar viðrar hann hugmyndir sínar um menntun íslenskra ungmenna.(16) Eins má færa fyrir því rök að meistari Jón Vídalín sé meiri átjándu aldar maður en Magnús Stephensen, því höfuðrit Jóns kom út á öldinni á meðan helstu skrif Magnúsar voru gefin út á þeirri nítjándu. Rannsókn á ritum manna frá fyrri hluta 18. aldarinnar og skipulegur samanburður við hina eiginlegu upplýsingarmenn hlýtur líka að teljast nauðsynlegur til að skilja þau nýmæli sem upplýsingin færði inn í íslenskan hugmyndaheim, auk þess sem slík rannsókn myndi treysta samhengið í íslenskri sögu.

Þegar á heildina er litið má segja að safn sagnfræðirannsókna á 18. öldinni sé bæði auðugt og fjölskrúðugt, þótt enn séu viðfangsefnin ærin. Mér fannst þannig athyglisvert að sjá hversu mismunandi skilning sagnfræðingar leggja í hugtakið 18. öld, vegna þess að rannsóknartímabilið í hag- og stjórnskipunarsögunni nær yfirleitt frá því seint á 17. öldinni og endar einhvern tíma á níunda áratug 18. aldar, en rannsóknir í menntunar- og hugmyndasögu hefja oftast leikinn um miðja öldina, en spanna tímann til um 1830-1840. Þetta er okkur áminning um að þrátt fyrir að aldir séu hentugir merkimiðar þá stöðvast gangur sögunnar ekki við aldamót. Átjándu aldar fræði geta því aldrei afmarkast við þá öld sem gefur þeim nafn, en sem sérstakur rannsóknarvettvangur opna þau möguleika á að leiða saman fræðimenn á ólíkum sviðum sem eru í raun allir að fjalla um sama fyrirbærið, þ.e.a.s. menninguna í allri sinni fjölbreytni. Einungis með samræðu fræðigreina getum við fengið þá heildarsýn sem er nauðsynleg til skilnings á þessu flókna viðfangsefni, og það er von mín að málþing sem þetta megi a.m.k. verða örlítið skref á þeirri braut.

 

Ritaskrá: Nokkur nýleg rit og ritgerðir um sögu 18. aldar

Helstu yfirlitsrit um tímabilið eru enn þá tvö bindi Sögu Íslendinga, þ.e. Páll Eggert Ólason og Þorkell Jóhannesson, Saga Íslendinga, 6. bd., Tímabilið 1701-1770 (Reykjavík, 1948) og Þorkell Jóhannesson, Saga Íslendinga, 7. bd., Tímabilið 1770-1830: Upplýsingaröld (Reykjavík, 1950). Einnig má benda á Árna Daníel Júlíusson, Helga Skúla Kjartansson og Jón Ólaf Ísberg, ritstj., Íslenskur söguatlas, 2. bd., Frá 18. öld til fullveldis (Reykjavík, 1992), Björn Þorsteinsson og Berstein Jónsson, Íslandssaga til okkar daga (Reykjavík, 1991) og Einar Laxness, Íslandssaga a-ö, 3 bd., 3. útg. (Reykjavík, 1995), en í þessum bókum er að finna mjög gagnlegar upplýsingar um sögu tímabilsins.

Anna Agnarsdóttir, "Sir Joseph Banks and the Exploration of Iceland," í R. E. R. Banks o.a. ritstj., Sir Joseph Banks, a Global Perspective (Kew, 1994), bls. 31-48.

Björn Lárusson, The Old Icelandic Land Registers (Lundi, 1967).

Sami, Islands jordebok under förindustriell tid (Lundi, 1982).

Björn Teitsson, Eignarhald og ábúð á jörðum í Suður-Þingeyjarsýslu (Reykjavík, 1973).

Bragi Guðmundsson, Efnamenn og eignir þeirra um 1700. Athugun á íslenskum gósseigendum í jarðabók Árna og Páls og fleiri heimildum (Reykjavík, 1985).

Gísli Gunnarsson, Fertility and Nuptiality in Iceland's Demographic History. Meddelande från Ekonomisk-historiska institutionen, Lunds universitet, 12 (Lund, 1980).

Sami, A Study of Causal Relation in Climate and History, with Emphasis on the Icelandic Experience. Meddelande från Ekonomisk-historiska institutionen, Lunds universitet, 17 (Lund, 1980).

Sami, Monopoly Trade and Economic Stagnation. Studies in the Foreign Trade of Iceland 1602-1787 (Lundi, 1983).

Sami, The Sex Ratio, the Infant Mortality and Adjoining Societal Response in Pre-Transitional Iceland (Lundi, 1983).

Sami, Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787 (Reykjavík, 1987).

Gísli Ágúst Gunnlaugsson, Ómagar og utangarðsfólk. Fátækramál Reykjavíkur 1786-1907 (Reykjavík, 1982).

Sami, "Löggjöf um fátækraframfærslu og stjórn fátækramála á 18. öld," Saga 21 (1983), bls. 39-72. Endurútgefin í: Gísli Ág. Gunnlaugsson, Saga og samfélag. Þættir úr félagssögu 19. og 20. aldar (Reykjavík, 1997), bls. 102-129.

Sami, "Granting of Privileges to Industry in Eighteenth-Century Iceland," Scandinavian Journal of History 7 (1982), bls. 195-204. Endurútgefin sem "Veiting forréttinda og einkaleyfa til iðnaðarstarfsemi á Íslandi á 18. öld," í Gísli Ág. Gunnlaugsson, Saga og samfélag. Þættir úr félagssögu 19. og 20. aldar (Reykjavík, 1997), bls. 225-235.

Sami, "Ansökningar om privilegier till manufakturer på Island 1750-1754," í Industri og bjergværksdrift (Oslo, 1985), bls. 67-93.

Sami, o.a. ritstj., Skaftáreldar 1783-1784. Ritgerðir og heimildir (Reykjavík, 1984).

Guðmundur Hálfdanarson, "Verði ljós! Af baráttu upplýsingar við myrkramenn og ljóshatara," Skírnir 166 (vor, 1992), bls. 194-210.

Guðmundur Jónsson og Magnús S. Magnússon, ritstj., Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland (Reykjavík, 1997).

Gustafsson, Harald, "Islands opkomst", "Handelens Flor" och "Kongens Cassa". Beslutningsprocess kring Islandshandeln 1733-1744," í Skog och brännvin: Studier i näringspolitiskt beslutsfattande i Norden (Osló, 1984), bls. 269-302.

Sami, Mellan kung och allmoge. Ämbetsmän, beslutsprocess och inflytande på 1700-talets Island (Stokkhólmi, 1985).

Sami, "Islands administration under 1700-tallet," í Administration in Norden på 1700-tallet (Osló, 1985), bls. 145-184.

Sami, Political Interaction in the Old Regime. Central Power and Local Society in the Eighteenth-Century Nordic States (Lundi, 1994).

Hastrup, Kirsten, Nature and Policy in Iceland 1400-1800 (Oxford, 1990).

Hrefna Róbertsdóttir, "Áætlun um allsherjarviðreisn Íslands 1751-52," Landnám Ingólfs, nýtt safn til sögu þess 5 (1996), bls. 29-88.

Ingi Sigurðsson, ritstj., Upplýsing og saga. Sýnisbók sagnaritunar Íslendinga á upplýsingaröld (Reykjavík, 1982)

Sami, ritstj., Upplýsingin á Íslandi. Tíu ritgerðir (Reykjavík, 1990).

Sami, Hugmyndaheimur Magnúsar Stephensens (Reykjavík, 1996).

Loftur Guttormsson, "Læsefærdighed og folkeuddannelse 1540-1800," í M. Jokipii og I. Nummela, ritstj., Ur nordisk kulturhistoria. Läskunnighet och folkbildning före folkskoleväsendet, XVIII. nordiska historikermötet. Mötesrapport III (Jyväskylä, 1981), bls. 129-191.

Sami, "Barnauppeldi, ungbarnadauði og viðkoma á Íslandi 1750-1860," í Athöfn og orð. Afmælisrit helgað Matthíasi Jónassyni (Reykjavík, 1983), bls. 137-169.

Sami, Bernska, ungdómur og uppeldi á einveldisöld. Tilraun til félagslegrar og lýðfræðilegrar greiningar (Reykjavík, 1983).

Sami, "Bókmenning á upplýsingaröld. Upplýsing í stríði við alþýðumenningu," í Gefið og þegið. Afmælisrit til heiðurs Brodda Jóhannessyni sjötugum (Reykjavík, 1987), bls. 247-289.

Sami, "Við rætur kirkjulegs regluveldis á Íslandi. Athugun á skráningu sóknarmanna um miðbik 18. aldar," Saga 25 (1987), bls. 47-88.

Sami, "Uppeldi og samfélag á upplýsingaröld. Samantekt á rannsóknarniðurstöðum," Saga 26 (1988), bls. 7-41.

Sami, "Staðfesti í flökkusamfélagi? Ábúðarhættir í Reykholtsprestakalli á 18. öld," Skírnir 163 (vor, 1989), bls. 9-40.

Sami, "Læsi," í Frosti F. Jóhannesson, ritstj., Íslensk þjóðmenning, 6. bd. (Reykjavík, 1989), bls. 119-144.

Sami, "Pietism and the Definition of Childhood: Evidence from Eighteenth-Century Iceland," History of Education 20 (1991), bls. 27-35.

Lúðvík Kristjánsson, Íslenskir sjávarhættir, 5 bd. (Reykjavík, 1980-1986).

Lýður Björnsson, "Ágrip af sögu Innréttinganna," í Helgi Þorláksson, ritstj., Reykjavík í 1100 ár (Reykjavík, 1974), bls. 117-145.

Sami, "Vinnudeilur á 18. öld," í Kristín Ástgeirsdóttir, ritstj., Reykjavík, miðstöð þjóðlífs (Reykjavík, 1977), bls. 252-269.

Sami, Saga sveitarstjórnar á Íslandi, 1. bd. (Reykjavík, 1972).

Sami, "Hvað er það sem óhófinu ofbýður?" Saga 25 (1983), bls. 88-101.

Már Jónsson, "Dulsmál í Landnámi Ingólfs 1630-1880," Landnám Ingólfs. Nýtt safn til sögu þess 4 (1991), bls. 22-41.

Sami, Blóðskömm á Íslandi 1270-1870 (Reykjavík, 1993).

Sigfús Haukur Andrésson, Verzlunarsaga Íslands 1774-1807. Upphaf fríhöndlunar og almenna bænarskráin, 2 bd. (Reykjavík, 1988).

Sigurður Pétursson, "Jón Þorkelsson, lærdómsmaður á 18. öld," Tímarit Háskóla Íslands 5 (1990), bls. 69-76.

Sumarliði Ísleifsson, Ísland: framandi land (Reykjavík, 1996).

Sveinbjörn Rafnsson, "Mataræði Íslendinga á 18. öld," Saga 21 (1983), bls. 73-87.

Þórunn Valdimarsdóttir, Snorri á Húsafelli. Saga frá 18. öld (Reykjavík, 1989).

Aftanmálsgreinar

(1*) Lofti Guttormssyni er þakkað fyrir gagnlegar ábendingar við samningu greinarinnar.

(2) Jóhannes Nordal, "Um bókina og höfund hennar," í Hannes Finnsson, Mannfækkun af hallærum, Jón Eyþórsson og Jóhannes Nordal gáfu út (Reykjavík, 1970), bls. xi-xii.

(3) Gefin út upphaflega sem Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 11 bd. (Kaupmannahöfn, 1913-1943). Ljósprentuð útgáfa kom út á vegum Sögufélags á árunum 1980-1990 og lauk henni með tveimur viðaukabindum í ritstjórn Gunnars F. Guðmundssonar (atriðisorðaskrá og fylgiskjöl), auk sérstaks bindis með útdráttum úr jarðabréfum frá 16. og 17. öld.

(4) Rétt er þó að geta tilrauna kirkjustjórnarinnar til að koma á reglulegri skýrslugerð um prestsverk og sóknarmannatöl um miðja 18. öld, sbr. Loftur Guttormsson, "Við rætur regluveldis á Íslandi. Athugun á skráningu sóknarmanna um miðbik 18. aldar," Saga 25 (1987), bls. 47-88.

(5) Björn Lárusson, The Old Icelandic Land Registers (Lundi, 1967), bls. 73, 82 og víðar.

(6) Harald Gustafsson, Mellan kung och allmoge. Ämbetsmän, beslutsprocess och inflytande på 1700-talets Island (Stokkhólmi, 1985), bls. 32.

(7) Sama rit, 280.

(8) Bragi Guðmundsson, Efnamenn og eignir þeirra um 1700. Athugun á íslenskum gósseigendum í jarðabók Árna og Páls og fleiri heimildum (Reykjavík, 1985), bls. 103.

(9) Gísli Gunnarsson, Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787 (Reykjavík, 1987), bls. 25. Þetta er íslensk útgáfa doktorsritgerðar Gísla, Monopoly Trade and Economic Stagnation. Studies in the Foreign Trade of Iceland 1602-1787 (Lundi, 1983).

(10) Sbr. Gísli Gunnarsson, "Söguskoðun, stjórnmál og samtíminn," Saga 33 (1995), bls. 99-109.

(11) Þessi söguskoðun kemur vel fram í ritgerð Einars Olgeirssonar, "Sögusýningin," í Lýðveldishátíðin 1944 (Reykjavík, 1945), bls. 381-430.

(12) Þorkell Jóhannesson, Saga Íslendinga, 7. bd., Tímabilið 1770-1830: Upplýsingaröld (Reykjavík, 1950), bls. 408-416 og Jón Jónsson [Aðils], Íslenzkt þjóðerni: Alþýðufyrirlestrar (Reykjavík, 1903), bls. 209-210.

(13) Um þetta hefur Ingi Sigurðsson fjallað t.d. í "Upplýsingin og áhrif hennar á Íslandi," í Ingi Sigurðsson, ritstj., Upplýsingin á Íslandi. Tíu ritgerðir (Reykjavík, 1990), bls. 9-42.

(14) Ingi Sigurðsson hefur fjallað rækilega um hugmyndir Magnúsar Stephensen í bókinni Hugmyndaheimur Magnúsar Stephensens (Reykjavík, 1996). Skoðanir Baldvins koma best fram í 1. bd. Ármanns á Alþingi (1829) - sbr. endurútgáfu sem ber heitið Uppeldið varðar mestu (Reykjavík, 1995).

(15) Baldvin Einarsson, Uppeldið varðar mestu, bls. 55.

(16) Jón Ólafsson, Hagþenkir, Þórunn Sigurðardóttir gaf út og skrifaði inngang (Reykjavík, 1996).