Alhæfingar og takmörk þeirra

Höfundur:

Íslensk bókmenntasaga III. Mál og menning 1996, 1016 bls.

[Birtist fyrst sem ritdómur í Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 1997.]

Bókmenntasaga Máls og menningar heldur áfram að koma út jafnt og þétt með tímans göngulagi, eða því sem næst, og hefur nú þriðja bindið séð dagsins ljós. Það er ákaflega mikið að vöxtum, enda spannar það tímann frá 1750 til 1918, sem löngum hefur verið talinn mikil gullöld íslenskra bókmennta. Auk ritstjórans, Halldórs Guðmundssonar sem ritar inngang, hafa margir höfundar lagt hér gjörva hönd á plóg, hver á sínu sérsviði: þannig hefur Matthías Viðar Sæmundsson skrifað um upplýsingaröld og síðan um sagnagerð á öllu þessu tímabili, Páll Valsson um ljóðlist á rómantíska tímanum og á "tíma þjóðskáldanna", eins og það heitir í ritinu, Gísli Sigurðsson um þjóðsögur, Árni Ibsen um leikritun, Silja Aðalsteinsdóttir um ljóðlist á tímum raunsæisstefnunnar og á nýrómantíska skeiðinu og loks hefur Viðar Hreinsson skrifað um vestur-íslenskar bókmenntir. Yfirleitt er hlutverkaskipting höfundanna mjög skýr, en þó kemur fyrir að fjallað er um sama efni á tveimur stöðum, frá meira eða minna mismunandi sjónarhorni. Þannig er fjallað um Stephan G. Stephansson bæði í kaflanum um "raunsæi í ljóðlist" og í kaflanum um vestur-íslenskar bókmenntir, um þjóðsögur er ekki einungis rætt í þeim sérstaka kafla sem þeim er helgaður, heldur líka þar sem lýst er hugarfari á upplýsingaröld, og að stöðu Íslendinga af kynslóð Fjölnismanna í Kaupmannahöfn og sálarkreppum þeirra þar er vikið bæði í köflunum um rómantíska ljóðlist og um upphaf sagnagerðar. Þetta er stundum klunnalegt.

Í áratugi hafa menn fjölyrt um þá hneisu að "bókmenntaþjóðin" skuli ekki hafa neina frambærilega bókmenntasögu. Hvað sem öðru líður hefur þetta verk þann mikla kost að vera til og bætir úr mjög brýnni þörf. En þetta er þó ekki allt og sumt. Höfundarnir hafa ekki aðeins unnið starf sitt af alúð, heldur hafa þeir líka fært sér í nyt þær miklu rannsóknir sem gerðar hafa verið á ýmsum þáttum íslenskra bókmennta undanfarin ár, og þeir hafa einnig sjálfir unnið frumrannsóknir. Því er þetta bindi bókmenntasögunnar gjörólíkt því sem það hefði orðið ef það hefði verið skrifað fyrir einum 20 árum eða svo. Skýrustu dæmin um þetta er kannske að finna í kaflanum um upplýsingaröldina: þar er t.d. ítarlega sagt frá "Sögu Ólafs Þórhallasonar", sem var varla nokkrum manni aðgengileg fyrr en hún var loksins gefin út 1987, og stuðst við ritgerð Maríu Önnu Þorsteinsdóttur um verkið, sem var óprentuð þegar þessi kafli var skrifaður en er nú komin út. Einnig er víða vitnað í óprentaða doktorsritgerð Matthew James Driscoll "The Sagas of Jón Oddson Hjaltalín". En hið sama gildir í meira og minna mæli um verkið í heild. "Íslensk stílfræði" eftir Þorleif Hauksson og Þóri Óskarsson, sem birtist 1994, hefur komið höfundunum að góðum notum, kaflinn um Jónas Hallgrímsson ber þess merki að það er einn af útgefendum ritsafns Jónasar (1989) sem um hann vélar (í erlendum ritum af þessu tagi hefði verið birtur listi yfir höfunda verksins með upplýsingum um feril þeirra, rannsóknir og slíkt, og er skaði að þeirri venju skuli ekki hafa verið fylgt hér), og þannig mætti halda áfram mjög lengi. Allt þetta eykur mjög á gildi verksins og gerir að verkum, að það er góður vitnisburður um yfirsýn manna yfir sögu íslenskra bókmennta eins og hún getur best orðið í lok 20. aldar. Við þetta má bæta, að bókmenntasagan er mjög alhliða, og eru ýmsu gerð góð skil sem hefur ekki alltaf þótt fínn litteratúr, þótt það hafi leikið sitt hlutverk og sé kannske ekki eins ómerkilegt og menn hafa vera látið, t. d. reyfaraþýðingum og slíku.

Hér gæti í raun og veru staðið amen eftir efninu, með þeim ummælum að lokum, að þessi bókmenntasaga hljóti nú framvegis að vera nauðsynlegt uppflettirit fyrir alla þá sem á annað borð lesa íslenskar bækur. En það reynist gjarnan erfitt fyrir nöldursegg að hætta að leita að fölnuðu laufblaði fyrr en hann finnur það, og því kemur það sennilega engum á óvart að gagnrýnandi vilji huga betur að því hvaða skil meginefni þessa bindis séu gerð. Það má nefnilega líta svo á að þetta þriðja bindi bókmenntasögunnar eigi ekki aðeins að fjalla um ákveðið tímaskeið, "hina löngu nítjándu öld" eins og útgefandinn orðar það, heldur standi höfundarnir einnig frammi fyrir "vandamáli" eða verkefni sem þeir þurfi að taka til athugunar og sé ólíkt því sem var á dagskrá í fyrri bindunum. Kjarni málsins er sá, að á þessu tímabili gerbreytist staða íslenskra bókmennta við það að þær verða hluti af vestrænni bókmenntahefð og menningarlífi og mótar það viðhorf Íslendinga ekki aðeins til tungunnar og menningararfsins heldur einnig til ritstarfa og skáldskapar af öllu tagi.

Á þessu eru ýmsir angar. Annars vegar gerist það að erlendis uppgötva menn nú forníslenskar bókmenntir, finna þeim nýjan stað í evrópsku menningarlífi. Þetta skiptir meginmáli fyrir Íslendinga, a.m.k. ef það er satt sem sumir hafa haldið fram, að þjóðir sem hafa gengið í gegnum hnignunar- og niðurlægingaskeið eigi gjarnan erfitt með að meta sinn eigin menningararf að verðleikum og ávaxta hann nema útlendir menn fari að sýna honum áhuga. Hins vegar leiða þessi nýju tengsl til þess að íslenskir höfundar verða í síauknum mæli fyrir áhrifum af vestrænum bókmenntum og flytja inn bókmenntaform sem ekki voru áður til, leikrit, smásögur og skáldsögur. Um þetta nýja samhengi verða þeir nú að fjalla sem rita bókmenntasögu þessa tímabils, og geta þeir t.d. ekki komist hjá því að líta á þróun vestrænna bókmennta á sama tíma og samspil íslenskra og erlendra bókmennta, og einnig að taka afstöðu til þess hvernig fræðimenn hafa sett sögu þeirra fram, hvaða kenningum þeir hafa haldið fram.

Frá því er skemmst að segja, að þetta meginvandamál er hvergi skilgreint í heild sem slíkt og fara höfundar misjafnar leiðir til að takast á við það. Í kaflanum um upplýsingaröldina, sem er grundvöllur alls þess sem á eftir fer, er sú stefna tekin að byggja mjög á hugmyndum ýmissa kenningasmiða og ber þar hæst Michel Foucault, þannig að ekki er ofmælt að andi hans svífi allvíða yfir vötnunum og víðar en nafn hans er nefnt. En það er nú svo að slíkum vinnubrögðum fylgir jafnan nokkur áhætta. Eitt af kynjafyrirbærum nútímans eru tískubylgjurnar sem ganga þannig yfir að fyrst er einhver höfundur hafinn langt upp fyrir skýin og nánast talinn innblásinn spámaður, þannig að hver sá sem fetar ekki sem nákvæmast í fótspor hans er talinn álfur út úr hól, en svo, kannske aðeins fáum árum síðar, fellur spámaðurinn af stalli, hugmynda hans sér hvergi stað og það er jafn sprenghlægilegt að vitna í þær eins og það var áður að vitna ekki í þær. "Fræðin", ef svo má segja, eru komin inn á allt aðrar brautir, eins og spámaðurinn hafi aldrei verið til.

En ef það þurfti á annað borð að styðjast við einhvern hugmyndasmið, hefur valið í sjálfu sér ekki tekist illa. Meðan flestir gúrúar sjöunda áratugarins eru nú að hverfa sporlaust inn í það víðáttulausa ríki, þar sem ekki eru einu sinni skuggar á ferð, er Michel Foucault nánast sá eini sem virðist ætla að hjara: menn sýna hugmyndum hans sífellt áhuga og hafa þær að einhverju leyti að leiðarljósi. En því fer samt víðsfjarri að þær hafi hlotið almenna viðurkenningu, og margir þeir sem notfæra sér aðferðir hans í rannsóknum sínum draga samt enga fjöður yfir það að ýmsar helstu kenningar hans hafi reynst hæpnar og jafnvel alrangar. Þegar svo er í pottinn búið, er í rauninni ekki nema ein leið til að beita aðferðum Foucaults á frjóan hátt, og hún er sú að meta gildi hverrar hugmyndar fyrir sig í beinu einvígi við afmarkað viðfangsefni. En fyrir slíkar rannsóknir er bókmenntasaga eins og þessi þó tæpast rétti vettvangurinn. Hins vegar er hætta á að aðrar leiðir sem virðast fyrir hendi leiði ekki annað en í ógöngur: það er einkum og sér í lagi hæpið að endursegja einhverjar af kenningum meistarans franska eins og viðtekin sannindi sem hægt sé umsvifalaust að miða við og hátimbra svo á slíkum grundvelli enn aðrar kenningar.

Þótt margt sé harla vel skrifað í kaflanum um upplýsingaröldina, ekki síst upphafið þegar höf. slæst í för með þeim Eggerti Ólafssyni og Bjarna Pálssyni upp á Heklu sumarið 1750 og sér margt og mikið af þeim sjónarhóli, er því miður ekki laust við að hann villist ofan í þennan pytt. Það tæki allt of mikið rúm að fjalla um einstök atriði, en á tvennt er þó rétt að benda.

Annað er það sem snýr að lesendum bókmenntasögunnar. Ef á að reyna að endursegja flóknar kenningar Michel Foucaults í nokkrum orðum er mikil hætta á að árangurinn verði marklítill og illskiljanlegur þeim sem er ekki á einhvern hátt kunnugur verkum heimspekingsins, og eigi þar af leiðandi lítið erindi til íslenskra lesenda. Ég á t.d. erfitt með að sjá hvernig menn eiga að geta skilið hugarfarslýsinguna bls. 50-52 í bókmenntasögunni án þess að þekkja kaflann um "prósa veraldarinnar" í riti Foucaults "Orðin og hlutirnir", eða þá áttað sig á bollaleggingunum um Don Kíkóta, bls. 147-151, án þess að vita hvaða hlutverk hann hefur í röksemdafærslu Foucaults í sama riti.

Hitt er nokkuð víðtækara. Því hefur stundum verið haldið fram, að viðhorf Michel Foucaults gangi þvert á alla sagnfræði: hann leitast nefnilega við að skilgreina einhver "þekkingarkerfi" sem séu á bak við alla þekkingu manna á einhverju ákveðnu tímabili og standi gjarnan öldum saman áður en þau víki fyrir öðru "þekkingakerfi". Þessu viðhorfi fylgja því mjög miklar alhæfingar, fullyrðingar um eitthvað sem á að gilda um ákveðin fyrirbæri í heild á löngum tíma. En fátt er því miður eins vandmeðfarið og alhæfingarnar, kannske geta einhverjir meistarar orðað þær þannig að þær hafi eitthvert gildi, en um leið og menn fara að taka þær hver eftir öðrum er voðinn vís.

Þetta má skýra með einu dæmi. Yfirlit um sjálfsævisögur á upplýsingaröld hefst á inngangi um þróun þessarar bókmenntagreinar almennt, og segir þar m.a. (bls. 115, með tilvísunum í ýmsa kenningasmiði, Foucault og aðra):

"Játningar Ágústínusar urðu með tímanum að lykiltexta ásamt lífssögu heilags Antoníusar sem rituð var um miðja 4. öld. Þessi verk mótuðu ásamt píslarsögu guðspjallanna kristilega sjálfstúlkun fram á 18. öld eins og ævisaga séra Jóns Steingrímssonar ber vitni um. Þeim fylgdi aragrúi eftirlíkinga sem einkennast af útþurrkun hins persónulega enda kom þróun miðaldakirkjunnar í veg fyrir veraldlega sjálfstúlkun í rituðu máli. Það var ekki fyrr en með endurreisninni sem skilyrði skópust að nýju fyrir ritun persónulegra sjálfsævisagna og er stundum sagt að sjálfið hafi þá verið uppgötvað að nýju".

Það er nú það. En hvað þá með Guibert af Nogent og Pétur Abelard sem báðir sömdu gagnmerkar og í hæsta máta persónulegar sjálfsævisögur á fyrri hluta 12. aldar? Ljóst er að þetta yfirlit stenst mjög illa. Nú mætti tína fleiri slíkar alhæfingar út úr þessu bindi bókmenntasögunnar, og ef þær skyldu nú samt reynast réttar eftir allt saman, hvað myndu þær þá segja okkur um viðkomandi greinar íslenskra bókmennta? Þær myndu ekki segja okkur mikið að gagni, það er nú meinið. Það bætir ekki miklu við þekkinguna á íslenskum sjálfsævisögum á 18. öld að renna sér á einhverjum bókmenntalegum rúlluskautum aftur til Ágústínusar og þaðan gegnum miðaldir og endurreisnartímann með viðkomu í guðspjöllunum, nema ef hægt væri að sýna fram á að "Játningar" Ágústínusar hefðu leitt t.d. séra Jón Steingrímsson til nærkvæmara skilnings á sjálfum sér. Það virðist ekki vera. En við rannsóknir á slíku þyrfti reyndar að beita öðrum aðferðum en alhæfingum.

Svo er nefnilega að sjá sem yfirgripsmiklar alhæfingar geti á einhvern hátt orðið þröskuldur í vegi fyrir að menn rannsaki stundlegar stefnur og strauma í bókmenntum og menningarlífi, víxlverkanir þeirra og árekstra: þetta tvennt fer illa saman, og er það m.a. þess vegna sem sagt hefur verið að viðhorf Foucaults gangi þvert á sagnfræði. En til þess að fást við vandamál tímabilsins sem þetta bindi bókmenntasögunnar fjallar um er það að mínu áliti fyrst og fremst þessi síðari leið sem er líkleg til að bera árangur.

Í kaflanum um upplýsingaröldina er sagt allrækilega frá merkilegum ágreiningi Hannesar Finnssonar og Eggerts Ólafssonar í kringum 1765: "Sá fyrri leitaði ekki fyrirmynda í fornöldinni heldur hjá forvígismönnum samtímans enda taldi hann að einangrunin stæði þjóðinni helst fyrir þrifum. Að dómi hans hlutu Íslendingar að tengjast hugsunarlífi annarra þjóða, siðum þeirra og lífsháttum, hvað sem leið sögulegri arfleifð og þjóðernissérkennum; ganga átti út frá veruleika samtímans en ekki ímyndaðri fortíð. Eggert var á hinn bóginn hugfanginn af fornöld þjóðarinnar. Menn áttu að semja sig að háttum forfeðranna, taka upp siði þeirra og venjur, auk þess sem færa þurfti tungumálið til forns talsmáta" (bls. 77).

Nú ætla ég svo sem ekki að reyna að velta fyrir mér spurningum sem höfundur þessa kafla hefur ekki borið upp og því síður reynt að svara. En menn geta þó leitt hugann að því hvort þessir heiðursmenn tveir, Hannes og Eggert, séu ekki á einhvern hátt að bergmála umræður samtímans á Vesturlöndum. Ef svo er, hefur þessi ágreiningur talsvert aðra merkingu en nútímamenn gætu haldið og gefið er í skyn með orðanna hljóðan í bókmenntasögunni. Þetta atriði varpar kannske ljósi á það sem sagt hefur verið hér á undan, og er ómaksins vert að huga nánar að því.

Þessar umræður hófust með því sem Frakkar kalla "deilur fornaldarsinna og nútíðarsinna" en Englendingar "bókabardagann": þær gusu fyrst upp á Ítalíu snemma á 17. öld, bárust síðan fram og aftur milli landa, náðu hámarki í lok aldarinnar og þögnuðu svo í bili í byrjun 18. aldar. Deilurnar stóðu um það, eins og franska heitið gefur til kynna, hvort nútímamenn væru eftirbátar fornmanna í Grikklandi og Rómaveldi í bókmenntum, listum og öðru eða hvort fornmenn hefðu í rauninni verið hálfgerðir villimenn að nokkru leyti og nútímamenn væru komnir langt fram úr þeim. Þetta hljómar mjög skýrt, að því er virðist, en það er blekking, því að deilurnar voru háðar á forsendum sem okkur eru nú mjög framandi. Á þessum tíma álitu menn sem sé, að til þess að hafa eitthvert raunverulegt gildi þyrftu allar æðri bókmenntir að hlýða ströngum og algildum reglum, sem byggðust á skynseminni sjálfri og væru því jafn bindandi og reglur stærðfræði eða rökfræði, enda snerust bókmenntir ekki um einhverja einstaklinga heldur um Manninn í sjálfu sér, eilífan og óbreytilegan, ákveðnar manngerðir hafnar upp fyrir stað og tíma, og ættu að segja einhver algild sannindi um þær. Það var almennt viðurkennt að Grikkir og Rómverjar hefðu fundið þessar reglur, eins og þeir höfðu lagt grunninn að rökfræði, og þannig lyft bókmenntunum upp úr "villimennsku", en spurningin var nú sú hvort þeim hefði auðnast að fylgja reglunum sjálfir að öllu leyti eða hvort nútímamenn hefðu orðið fyrstir til þess.

Til þess að átta sig á þessum deilum er nauðsynlegt að vita, að þessar "reglur" byggðust að sumu leyti á undarlegum misskilningi á fornbókmenntunum og alls kyns fordómum og þröngum smekk manna á þessum tíma. Þeir sem réðu ferðinni í þessum efnum voru t.d. svo forsnobbaðir, að þeir töldu að það bryti í bága við allar reglur bókmennta, svo og bæði reglur skynsemi og velsæmis, að segja frá vinnandi fólki í æðri bókmenntum (gamanleikir gátu verið undanþegnir frá því). Það var erfitt fyrir "nútíðarsinna" að ráðast á latneskar gullaldarbókmenntir sem voru grundvöllur menntunar og hver og einn menntamaður gat lesið á frummálinu, og þess vegna beindu þeir geirum sínum fremur að Hómer sem var mönnum fjarlægari og þeir urðu að lesa í mismunandi góðum þýðingum. Og hvað var það ekki sem blasti við lesendum í 6. þætti Ódysseifskviðu: þar segir frá því að Násíka fór niður að sjó ásamt þjónustumeyjum sínum til að þvo þvott. Prinsessa að vinna! Hvílíkt smekkleysi og ruddaskapur! Hvernig gátu nú "fornaldarsinnar" svarað þessu? Það gátu þeir alls ekki. Þeir reyndu að vísu að halda því fram að stúlkurnar hefðu alls ekki verið að þvo, heldur farið niður að sjó til að skemmta sér og borða úti, en það dugði skammt, textinn er alveg ótvíræður.

Hvað kemur þetta Íslendingum nú við? Ljóst er að miðað við þessar reglur, sem kenndar voru við algildan smekk, voru íslenskar fornbókmenntir ekki annað en villimennska. Um það hlutu allir að vera sammála, hvort sem þeir voru "fornaldarsinnar" eða "nútíðarsinnar". Þar eru konur nefnilega ekki aðeins að þvo þvott heldur líka að sauma skyrtur, og karlmenn að bjarga heyjum undan rigningu, aka skarni á tún og gera annað slíkt sem særði gróflega velsæmið á 18. öld og jaðraði við klám. Þessar íslensku bókmenntir, þar sem heita má að allar reglur væru þverbrotnar á hverri síðu, gátu því varla haft nokkurt gildi nema þá sem sögulegar heimildir, enda voru það einkum fornfræðigrúskarar sem sýndu þeim áhuga, og ef menn þýddu einhver sýnishorn úr þeim á aðrar tungur reyndu þeir að sveigja þær sem mest að hinum "algilda smekk". Það gat ekki á nokkurn hátt talist til verðleika að hafa varðveitt það tungumál sem þessi samsetningur var skráður á. Og "íslensk þjóðernissérkenni" gátu heldur ekki verið annað en sérviska - villimannleg frávik frá "Manninum í sjálfu sér".

En vitanlega voru ekki allir sammála, og uppúr þessum "deilur fornaldarsinna og nútíðarsinna" hófst síðan andóf gegn þessum "algilda smekk" sem var mun róttækara en nokkuð sem hafði áður komið fram. Menn komust á þá skoðun að hann væri fyrst og fremst smekkur franskrar yfirstéttar og "Maðurinn í sjálfu sér" ekki annað en franskur aðalsmaður á tímum Lúðvíkanna. Andófið varð því sterkast í norðurhluta Evrópu, þar sem það var þáttur í andspyrnu gegn þeim frönsku áhrifum sem verið höfðu ríkjandi í álfunni um langt skeið. Á þeim slóðum fannst mönnum að söguhetjur og stíll þeirra æðri bókmennta sem fylgdu reglunum væru þeim framandi og endurspegluðu ekki á nokkurn hátt þeirra eigin tilfinningar og hugsanir. Kom þetta fram með ýmsu móti: í hinum þýskumælandi heimi skilgreindu menn þessa andstöðu með orðunum "Zivilisation" sem var látið tákna innflutta franska fagurfræði og siði og "Kultur" sem notað var á hinn bóginn um innlend viðhorf og siði og talið miklu djúpstæðara og raunverulegra, og í Danmörku skopstældi Wessel franska harmleiki.

Kjarninn í þessu andófi, sem fór hægt af stað í byrjun en magnaðist æ meir eftir því sem leið á 18. öldina, var sú hugsun, að það væru ekki til neinar algildar reglur um bókmenntir af því tagi sem áður höfðu verið boðaðar, menn væru mismunandi eftir stað og tíma og þyrftu þess vegna mismunandi tjáningarform og stíl. Jafnframt fóru menn að leita að leiðum til að túlka þær tilfinningar sem þeim fannst að sér væru eiginlegar en höfðu ekki fundið neinn farveg innan þeirra klassísku bókmennta sem fylgdu reglunum. Segja mætti að leitin væri ein, en þar sem hún reyndi fyrst og fremst að fara út fyrir "klassísku hefðina" frönsku stefndi hún í ýmsar áttir: menn höfnuðu ekki fornöldinni heldur var hún endurmetin og Hómer nú skyndilega settur í öndvegið, og einnig hurfu menn að alls kyns bókmenntaformum Norður-Evrópu sem "klassíska hefðin" hafði ýtt til hliðar en þeim fannst koma sér mun meir við en hún, sem sé þjóðkvæðum, þjóðsögum, miðaldabókmenntum og bókmenntahefð annarra þjóða á norðurslóðum.

Sagt hefur verið að þetta sé mesta byltingin sem orðið hafi í andlegu lífi álfunnar síðan á endurreisnartímanum, og er það tvímælalaust rétt, ekki síst ef að því er gáð að í kjölfar hennar fylgdi ekki aðeins óhemju mikil bókmenntasköpun, heldur spruttu margvísleg vísindi upp af henni: þýska söguhyggjan, samanburðarmálfræðin, textafræði, þjóðháttafræði og þar fram eftir götunum. En fyrir stöðu Íslendinga var þetta einnig mesta byltingin sem orðið hefur: í þessum nýju straumum fór sú bókmenntahefð sem geymst hafði á Íslandi að fá eitt af lykilhlutverkunum. Það að hafa varðveitt tungumálið sem þessar miklu bókmenntir voru samdar á var stórkostlegt kraftaverk, og Íslendingar sjálfir voru þeim mun merkilegri sem þeir varðveittu betur málið og menninguna og sín eigin þjóðernissérkenni. Og einnig má bæta öðru við: á tímum "klassíska smekksins" var harla erfitt að brúa bilið milli bókmennta sem fylgdu reglunum og íslensku hefðarinnar, en þegar menn í Norður-Evrópu byrjuðu að róa á allt önnur mið og leituðu sér t. d. að fyrirmyndum í þjóðkvæðum, breyttist þetta gersamlega: fyrir skáld og rithöfunda opnaðist sá nýi vegur að sameina innlendan arf og evrópskar nýjungar, vera skáld á íslensku og jafnframt í takt við hinn vestræna tíma.

Þá er komið aftur að Hannesi og Eggerti. Um ágreiningsmál þeirra er þetta ályktað í bókmenntasögunni (bls. 77):

"Hannes var mun nær nútímaviðhorfum í þessum efnum. Fyrir honum var tíminn ótrufluð hreyfing inn í raunverulega framtíð en ekki endurtekning glæsilegrar byrjunar, þjóðlegrar og hetjulegrar fortíðar. Hann tók erlent knapafas fram yfir samræmt göngulag fornt".

Það má vel vera. En þegar á samhengið er litið getur maður einnig velt því fyrir sér, hvort Hannes hafi hér ekki verið maður fortíðarinnar, bundinn þeim smekk sem enn var ríkjandi í álfunni, en Eggert þvert á móti maður hins nýja tíma. Hefði verið fróðlegt að fá svör við spurningum af þessu tagi frá sem víðustum sjónarhornum og vænlegra til skilnings en alhæfingar úr smiðju Foucaults og félaga. Þessi gloppa er þeim mun tilfinnanlegri fyrir þá sök, að þegar að rómantísku skáldunum kemur eru þau staðsett innan hræringa síns tíma á Vesturlöndum: sú umfjöllun er með ágætum, en það háir henni að hún hangir dálítið í lausu lofti, þar sem ekki hefur verið gert á sama hátt grein fyrir forrómantísku byltingunni á öldinni á undan. Auk þess er bagalegt að hún skuli vera í tveimur hlutum (bls. 253-269, að viðbættum bls. 314-320, og svo bls. 497-522).

Um framhald þessarar sögu, áhrif vesturlenskra strauma á íslenskar bókmenntir gegnum alla 19. öld og til 1918, er óþarfi að fjölyrða. Í því samhengi sem hér hefur verið rakið kviknar þó sú spurning hvernig á því kunni að standa að þegar erlendar stefnur berast til landsins virðast þær stundum talsvert breyttar og lagaðar að einhverju öðru, og þegar þær hafa á annað borð fest rætur er eins og þær séu mun langlífari á Íslandi en erlendis. Má kannske segja, að þrátt fyrir mikil erlend áhrif, ekki síst gegnum menntamenn sem dvöldust langdvölum í Kaupmannahöfn, hafi Íslendingar ekki verið móttækilegir nema fyrir ákveðnum straumum, jafnan "sneytt verstu öfgarnar" af erlendum bylgjum, eins og einhvern tíma var sagt, og síðan haldið fast í það sem þeir höfðu tileinkað sér? Yfir slíkt hefði verið gagnlegt að fá eitthvert heildaryfirlit.

Svo að lokum eitt. Í þessu bindi er fjallað mjög alhliða um íslenskar bókmenntir á "hinni löngu 19. öld" og þar af leiðandi er sagt frá ýmsu sem nútímamenn myndu varla telja lifandi bókmenntir. Hjá því verður ekki komist. En þá er bagalegt þegar hlaupið er á hundavaði yfir verk sem eru ennþá mjög læsileg. Meðal þeirra eru skáldsögur Jóhanns Magnúsar Bjarnasonar, sem eru afgreiddar í einum sjö línum (bls. 752-753), og hefði Halldór Laxness þó átt að leiða menn í allan sannleika um gildi þeirra. Einnig finnst mér að allt of lítið sé gert úr sögulegum skáldsögum Jóns Trausta, einkum þó "Holt og Skál", sem er rétt aðeins nefnd (bls. 849) og einkennist ekki af "rómantískri fortíðarhyggju", eins og sagt er um þennan þátt í verki höfundarins. Fyrst menn eru á annað borð að leita til erlendra kenningasmiða, hefði kannske mátt fjalla um hana út frá þeim sjónarmiðum sem sett eru fram í riti Lukács um sögulegar skáldsögur. Þetta rit er að vísu yfirfullt af alls kyns glórulausu pólitísku rugli, en þrátt fyrir það má þar finna mjög skarplegar skilgreiningar á vissum formúlum sögulegra skáldsagna sem gætu varpað ljósi á þessa merku sögu Jóns Trausta.

Þriðja bindi bókmenntasögunnar er mjög vel úr garði gert og fylgir því mikill fjöldi mynda sem varpa oft ljósi á meginmálið.